spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaAuðvelt hjá Stjörnunni í fyrsta leik

Auðvelt hjá Stjörnunni í fyrsta leik

Það var margt um manninn í Mathús Garðabæjarhöllinni í kvöld þegar að fyrsti leikurinn í fyrri undanúrslitaviðureigninni í Dominosdeild karla fór fram. Fyrirfram var búist við spennandi leik enda höfðu ÍR-ingar sigrað sterkt Njarðvíkurlið í átta liða úrslitum en Stjarnan strögglaði aðeins með baráttuglatt lið Grindavíkur.

Það er skemmst frá því að segja að eftir góða byrjun ÍR-inga þar sem þeir komust meðal annars í 8 – 18 þá tóku Garðbæingar öll völd á vellinum strax í öðrum leikhluta þar sem þeir náðu um 10 stiga forystu. Eftir hálfleikinn sprengdi Stjarnan upp leikinn, náðu 25 stiga forystu og leikurinn varð aldrei spennandi. Lokatölur 96 – 63 fyrir Stjörnuna.

Stigahæstur Stjörnumanna var Brandon Rozzell sem smellti í 28 stig og 6 fráköst en hjá gestunum var Kevin Capers stigahæstur með 18 stig.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Stjörnumenn voru einfaldlega betri á öllum sviðum tölfræðinnar í kvöld. Skutu 50% utan af velli og 47% fyrir utan þriggja stiga línuna. Frábær skottölfræði og það er erfitt að vinna lið sem skorar með annarri eins skilvirkni.

Stjörnumenn áttu líka fráköstin, þeir tóku 45 fráköst gegn 31 hjá gestunum og fengu 20 stig af bekknum hjá sér gegn einungis 7 hjá ÍR.

 

Gæði

Gæði stjörnumanna skinu í gegn í leiknum í kvöld. Allir byrjunarliðsmenn Stjörnunnar áttu góðan leik auk þess sem þeir fengu frábært framlag af bekknum frá Collin Pryor. Gæðin einfaldlega leka af liðinu þegar að enginn hittir á sinn versta dag. Brandon setti stór skot, Hlynur slökkti á Sigga Þorsteins og Ægir Þór gaf 10 stoðsendingar. Vel gert hjá bæði burðarásunum sem og rulluspilurunum.

 

Vondur dagur

Sigurður Gunnar Þorsteinsson sem átti glimrandi einvígi gegn Njarðvik í átta liða úrslitum var varla skugginn af sjálfum sér í dag. Undirritaður ætlar ekki að gerast svo grófur að segja að Siggi hafi átt svona erfitt uppdráttar gegn Hlyni Bæringssyni en hann var allavega ekki mikið að láta reyna á sóknarhæfileikana sína í kvöld. Niðurstaðan enda heldur rýr, 4 stig og 2 fráköst á 31 mínútu. Betur má ef duga skal.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)

Fréttir
- Auglýsing -