spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Matthías datt í gang og ÍR tryggði oddaleik

Umfjöllun: Matthías datt í gang og ÍR tryggði oddaleik

ÍR knúði fram oddaleik í einvígi liðsins gegn Njarðvík í átta liða úrslitum Dominos deildar karla. Segja má að sigur ÍR hafi verið sannfærandi en liðið leiddi frá fyrstu körfu. Lokastaðan 87-79 fyrir ÍR sem jafnar þar með einvígið 2-2 eftir að hafa lent 2-0 undir.

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

ÍR mættu snældubilaðir

Gríðarlega góð stemmning var í liði á fyrstu sekúndum leiksins. Liðið setti tvær þriggja stiga körfur til að kveikja í stúkunni og ÍRingar gjörsamlega gnæfðu yfir Njarðvíkindum sem hreinlega urðu litlir í sér í upphafi leiks. ÍR náði 18-5 forystu fljótlega sem þeir gáfu aldrei eftir. 

Þetta er Mattinn okkar

Matthías Orri hefur ekki alveg verið að finna fjölina síðustu misseri sóknarlega. Skotið hefur ekki alveg verið með honum en leiðtogahæfni hans hefur skinið í gegn. Mattinn sem við þekkjum svo vel mætti hinsvegar í dag. Þriggja stiga skotin duttu, sjálftraustið óx og hann gjörsamlega tók leikinn yfir. Mögnuð frammistaða hjá kauða á öllum stöðum leiksins en auk þess að enda með 23 stig, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta þá stjórnaði hann hraðanum óaðfinnanlega.

Skák og mát hjá Borce

Í síðasta leik liðanna í Hellinum tókst Njarðvík að taka stjórnina í leiknum og ýta ÍR úr sínum styrkleikum. Borce er hinsvegar mikill skákmeistari og hafði séð við kollega sínum Einari Árna. ÍR stjórnaði hraðanum og hleypti Njarðvík aldrei af stað, nánast allur leikurinn var spilaður á hálfum velli sem hentar ÍR vel. Varnarleikur ÍR var öflugur en Elvar komst aldrei á ferðina til að draga að sér varnarmenn ÍR. Frábærlega uppsettur leikur hjá Borce auk þess sem ákvarðanataka í leiknum var einnig mjög góð.

Frammistaða Njarðvíkur

Einfalda útskýringin á tapi Njarðvíkur er sú að liðið varð undir í allri baráttu. Það sást snemma í leiknum að liðið var ekki tilbúið í lætin í Hellinum og þann bardaga sem boðið var uppá. Varnarleikur liðsins var heilt yfir slakur, liðið átti fá svör við uppleggi ÍR sem tókst að ná í góð skot í nánast hverri sókn. Njarðvík náði ekki stoppi þegar það virkilega þurfti til að brjóta niður áhlaup ÍR.

Gömul saga og ný af Ghetto Hooligans

Fyrir áhugamenn um bókasöfn og almenna næði þá var leikurinn í kvöld ekki fyrir þá. Stuðningsmenn ÍR sáu til þess að allir í húsinu verða með suð í eyrum í kvöld, slík voru lætin. Þeir sungu allan tímann og studdu sína menn sem gerði klárlega gæfumuninn í þessum leik.

Stemmningin ÍR megin fyrir oddaleik?

Eftir að Njarðvík vann fyrstu tvo leikina má segja að liðið sé komið upp við vegg núna. Stemmningin er algjörlega með ÍR þessa stundina á meðan Njarðvík mæta nokkuð beygðir inní oddaleikinn. Það hefur heldur betur orðið kúvengind í þessari seríu og getur allt gerst í oddaleiknum á mánudag.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)

Viðtöl eftir leik: (Væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -