Grindavíkurstúlkur gátu tryggt sér farseðilinn í úrslitaeinvígi 1. deildar með 3. sigrinum á móti Þór Akureyri og tókst áætlunarverkið en þó var það engin gönguferð í garðinum, lokatölur 75-67.
Við höfum margoft séð úrslitakeppni snúast þegar lið er komið í 2-0 forystu og hvað þá með heimavöllinn til að klára dæmið, þá vilja lið oft mæta nett værukær til leiks á meðan særða dýrið mætir brjálað til leiks. Kannski að heimastúlkur hafi haft þessa staðreynd í huga því þær mætu grimmar til leiks og leiddu eftir byrjunina 26-16.
Þórsstelpur Grindvíkingsins Helga Rúnars Braga, eru hins vegar engin lömb að leika sér við og voru greinilega ekki mættar bara til að vera með og tóku 2. leikhlutann 12-19 og því munaði munaði bara 3 stigum í hálfleik, 38-35.
Aftur tóku gular stjórnina í seinni hálfleik og tóku 3. leikhlutann 20-14 og fóru því með þægilegt forskot í lokabardagann en norðanstálin neituðu að gefast upp og náðu að búa til leik en Grindavík var sterkari á lokasprettinum og vann að lokum sanngjarnan sigur, 75-67.
Hannah Louise Cook var með vel feitletraða línu í kvöld og það þrátt fyrir að byrja ekki en hún hefur komið af bekknum síðan hún kom úr fríinu um daginn (hún missti af 1. leiknum). En hún var frábær í kvöld og skilaði flottri tvennu, 20 stigum og 10 fráköstum. Stal auk þess 5 boltum og varði aðra 4 (32 í framlag). Athyglisverð tölfræði er líka hvernig liðinu gengur á meðan viðkomandi leikmanns nýtur við og þar var hún líka hæst, +15. Fjórir aðrir leikmenn skiluðu sér yfir 10 stiga múrinn í stigaskorun, Hrund með 13, Natalía og Ólöf Rún með 11 og Andra með 10. Áfram sami góði liðsbragurinn á liði Grindavíkur.
Sylvía Rún Hálfdánardóttir bar af liði norðankvenna með 26 stig og 10 fráköst (24 í framlag). Kristrún Ríkey var líka flott og grátlega nærri tvennunni líka með 15 fráköst og 9 stig. Karen Lind kom sér líka yfir 10 stiga múrinn, 13. Þessar flottu Þórsstúlkur því á leiðinni í sumarfrí en framtíðin virðist vera björt og þangað ættu jafnvel ungar og efnilegar stúlkur að þyrpast eins og Helgi Rúnar þjálfari stingur upp á.
Viðtöl eftir leik: