spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR mundaði sópinn - Snemmbúin vorhreingerning í Keflavík

KR mundaði sópinn – Snemmbúin vorhreingerning í Keflavík

KR-ingar eru komnir í undanúrslit Dominos deildar karla eftir öruggan 21 stig sigur, og sóp í seríunni, á móti lánlausum Keflvíkingum í Blue Höllinni við Sunnubraut. KR-ingar sigldu frammúr í síðari hálfleik með öguðum sóknarleik og ekki síst góðri nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna á meðan vængbrotnir Keflvíkingar áttu í erfiðleikum með að koma fleirum en Michael Craion í gang í sókninni. Keflvíkingar eru því farnir í sumarfrí á meðan fimmfaldir Íslandsmeistarar KR-inga eru komnir á vegferð þess að elta þann sjötta þar sem þeir mæta að öllum líkindum annaðhvort Njarðvík eða Stjörnunni fari allt eftir bókinni í öðrum viðureignum 8 liða úrslitanna.

Byrjunarlið:

KEF: Kacinas – Gunnar – Reggie Dupree – Hörður –  Michael Craion

KR: De Nunno – Emil – Kristófer – Pavel – Julian Boyd

Stemmningin fyrir leik var mettuð af spennu og hungri þar sem hinn reynslumikli Joey Drummer leiddi vaska sveit keflvískra stuðningsmanna í tryllingslegum, en um leið þaulæfðum herópum sem glumdu langt út fyrir Blue höllina og tóku á móti blaðamanni úti á bílastæði. Gæsahúðarstemmning. KR-ingar öllu rólegri sín megin í stúkunni með stóískt 2-0 glott á vörum enda þægilegt að vita til þess að leikur kvöldsins væri ekki upp á líf eða dauða fyrir Vesturbæinga. Keflvíkingar aftur á móti með draug komandi sumarfrís hangandi yfir sér og það í mars, en fyrir þá sem ekki þekkja til þá tilheyrir mars mánuður vetrarfrístímabilinu á almennu vinnudagatali.

Gangur leiksins

Michaele De Nunno byrjaði leikinn með tveimur þristum fyrir KR sem komst í 6 – 11 áður en Keflvíkingar herrtu á skrúfunum og komust í 12-11 með góðu áhlaupi. Litháinn Mindaugas Kacinas virtist hafa fengið vítamín og hitakrem fyrir leik en hann skoraði 6 af fyrstu 12 stigum heimamanna og ekki að sjá að meiðslin sem héldu honum fráverandi í leik tvö væru að plaga hann. Jafnræði var með liðunum út leikhlutann þar sem heimamenn leiddu að loknum 10 mínútum 19-18 þar sem barist var um hvern bolta og

Michael Craion opnaði annan leikhlutann á tveimur stigum undir körfunni og bónusstigi af línunni áður en Kacinas smellti niður tveimur af þremur vítaskotum eftir að Björn Kristjánsson hafði gerst brotlegur í þriggja stiga tilraun hans. 24-18. KR-ingar svöruðu með myndarlegri úttekt úr reynslubankanum á næstu tveimur mínútum í boði Helga, Pavels og Jóns Arnórs og allt í einu staðan orðin 24-27.  De Nunno, sem hefur vaxið fyrir KR liðið er liðið hefur á veturinn, bætti við 5 stigum eftir þrist og gegnumbrot en Michael Craion var að halda Keflvíkingum á floti og sá um stigaskorið . Staðan 32-34 þegar tæpar 4 mínútur voru eftir af hálfleiknum. Reggie Dupree setti fyrstu þriggja stiga körfu Keflvíkinga í leiknum (eftir 7 misheppnaðar tilraunir liðsins) þegar mínúta var eftir af hálfleiknum sem þykir ekkert merkileg nýting á Sunnubrautinni. KR-ingar á sama tíma með ljómandi fína nýtingu fyrir utan bæjarmörkin eða 7 af 17 í hálfleiknum. Staðan í hálfleik 39-41 fyrir gestina.

KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn með 0-8 áhlaupi með þristum frá Paveli og Julian Boyd og svo smekklegri klárun frá Krisistóferi Acox eftir huggulega vagg og veltu með Jóni Arnóri. Sverrir Þór, þjálfari Keflvíkinga, tók þá leikhlé fyrir Keflavík í stöðunni 39-49 og 7 og hálf mínúta eftir af 3. leikhluta. Munurinn hélst í og við 10 stigin nánast út leikhlutann þar sem KR var að spila mjög skynsamlega og finna opin skot og opnanir hvað eftir annað með Pavel og De Nunno að stýra skútunni. Hörður Axel Vilhjálmsson var engan veginn að finna sig í stigaskorun fyrir heimamenn og sama má segja um nær alla nema Craion. Það munar um minna þegar breiddin er ekki mikil fyrir. Varnarleikur KR-inga var að gera Keflavík lífið erfitt og að sama skapi hreyfðist boltinn lítið og því auðvelt fyrir gestina að halda Keflavík í skefjum án þess að eyða mikilli orku varnarlega. Það kveikti vonarneista í brjósti áhangenda Keflvíkinga þegar Magnús Gunnarsson setti flautuþrist í lok leikhlutans, nýkominn inná í fyrsta sinn í leiknum. Staðan 54-61 eftir þrjá leikhluta.

Ekki bætti það útlit heimamanna þegar Gunnar Ólafsson fékk að líta sína 5. villu þegar 3 mínútur voru búnar af 4. leikhluta og De Nunno nuddaði salti í sárið með djúpum þrist í næstu sókn til að koma muninum upp í 13 stig. Mindaugas Kacincas var byrjaður að láta vel á sjá að ekki væri hann við 100% heilsu en hann hafði ekki skorað stig í síðari hálfleknum og eytt miklum tíma utanvallar í yogaæfingar til að teygja á bakinu. Lífið fjaraði hægt og rólega út í liði heimanna sem reyndu örvæntingarfullar skottilraunir til að halda voninni á lífi en KR vélin malaði í kunnuglegum takti og fyrr en varði var munurinn orðinn 20 stig, 62-82, og tæpar 3 mínútur eftir af leiknum. Það fór svo að lokum að KR-ingar sigldu þessu auðveldlega heim og sópuðu Keflavík í snemmbúið sumarfrí þetta árið. Lokatölur 64-85

Maður leiksins

Michele De Nunno (24 stig, 53%þriggja stiga nýting). Setti 7 af 13 þriggja stiga skotum sínum niður og setti tóninn frá byrjun. Setti bara stórar körfur að manni fannst og bar boltann upp af öryggi ásamt Pavel.

Julian Boyd (20 stig og 13 fráköst), Pavel Ermolinskij (12 stig, 8 fráköst) og Jón Arnór Stefánsson (11 stig, 8 stoðsendingar)  áttu líka skínandi leik í annars vel stilltu KR liði.

Michael Craion (26 stig, 11 fráköst, 5 stoðsendingar) var langbestur hjá Keflavík og sá eini

Kjarninn

KR liðið er bara miklu betra en Keflavíkurliðið í dag. Svo einfalt er það. Sópurinn á loft. KR er ekki týpískt 5. sætis lið og ber að hafa það í huga að það er að  kvikna á liðinu á hárréttum tíma ársins. Óþarfi að eyða of mikilli orku í deildarkeppnina þegar lykilmenn eru komnir á síðustu árin, bara að gefa í þegar það telur.  Reynslan og þroskinn í ákvörðunartökum, þekking á því sem þarf að gera til að ná árangri auk breiddar sem jafnast á við hvaða lið sem er í deildinni gera KR liðið ekki að neinum óskamótherja í undanúrslitunum og skyndilega eru raddir kviknaðar þess efnis að KR geti slegist um þann stóra 6. árið í röð.

Keflavík er búið að vera í krýsu, lykilmenn eru óstöðugir, rulluleikmenn eins og Magnús Traustason og Reggie Dupree eru ekki að skila framlagi og jafnvel X factor liðsins er týndur og þjálfari liðsins biður fólk að hafa augun opin í viðtölum þegar hann berst í tal. Meiðsli Mindaugas Kacinas og Guðundar Jónssonar reyndust liðinu of dýrkeypt til að hægt væri að fylla það skarð.

Keflvíkingar voru þó flottir í stúkunni og fá stig fyrir að keyra upp góða stemmningu þrátt fyrir að liðið væri í dauðakippum sínum á vellinum.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson) 

Viðtöl eftir leik (væntanlegt)

Umfjöllun: Sigurður Friðrik Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -