Ríkjandi fimmfaldir Íslandsmeistarar KR lögðu Keflavík í háspennuleik í Blue-höllinni í kvöld, 76-77 þar sem Jón Arnór Stefánsson setti leikinn á ís með þrist þegar 18 sekúndur voru eftir. Framan af hafði Jón hitt illa en skotið sem öllu máli skipti hins vegar rataði rétta leið. KR náði mikilli forystu snemma í leiknum en með ólseigri baráttu náðu Keflvíkingar að snúa leiknum við en breiddin skilaði KR-ingum sigri.
Julian Boyd var frábær í leiknum fyrir KR með 33 stig og 11 fráköst en hann var með 24 stig fyrri hálfleik. Hjá Keflavík var Mindaugas Kacinas stigahæstur með 25 stig en Hörður Axel Vilhjálmsson var einnig frábær í leiknum með 21 stig af 7 þriggja stiga körfum.
Á Sauðárkróki lagði Tindastóll Þór frá Þorlákshöfn, 112-105. Stighæstur hjá Stólunum var Philip Alawoya með 27 stig en hjá Þór var það Nickolas Tomsick með 39.