spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaArnar: Feginn að hafa náð að landa þessum sigri

Arnar: Feginn að hafa náð að landa þessum sigri

Arnar var sáttur með sigurinn en vildi meina að margt mætti bæta fyrir næsta leik:

Þetta leit út fyrir að ætla að verða eins og í draumum þínum þarna í öðrum leikhluta, þið náið mest 20 stiga forskoti. En hvað gerðist síðan, kom eitthvað kæruleysi í ykkur?

Nei, Grindvíkingar fóru að gera hluti sem við réðum illa við. Við vorum líka óskynsamir í lok annars leikhluta og þeir fengu blóð á tennurnar. Þetta er bara hörkulið, þeir eru með 5 leikmenn sem geta skorað 20 stig á okkur og það vildi til að það var einn sem náði sér ekki á flug sóknarlega. Þeir eru bara drullugóðir í körfu og ég er bara feginn að hafa náð að landa þessum fyrsta sigri en það er nóg eftir!

Þið hafið gætt ykkur vel á því að líta ekki á þetta sem eitthvað létt verkefni í átta liða úrslitum?

Neinei, ef þú horfir á mannskapinn hjá Grindavík þá eru menn galnir að halda það.

Jájá. Mér fannst Antti og Rozzell gera mjög vel í þessum leik og voru duglegir við að setja erfiðu, þungu, mikilvægu körfurnar þegar Grindavík sóttu að ykkur…það er ekki slæmt að hafa svona meistara í sínum röðum?

Jah, en málið er að Tommi átti frábæran fyrri hálfleik, Collin góðan fjórða leikhluta, Ægir stjórnar þessu vel, Addú kemur sterkur inn. Við erum ekkert einn eða tveir menn – það er kannski það sem hjálpaði okkur í dag þar sem margir lögðu í púkkið.

Sérðu eitthvað í þessum leik sem þið þurfið að horfa til og gæta ykkur á í leik tvö?

Já heilan helling!

Já…viltu nefna einhver dæmi?

Nei! Jói fer og les þetta allt saman…!

Ekki fékkst meira upp úr hinum skemmtilega og dulúðlega þjálfara Stjörnunnar að þessu sinni enda fer fram skák á hliðarlínunni á sama tíma og liðsmenn takast á inn á vellinum.

Meira má lesa um leikinn hér 

Viðtal: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -