spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaGolíat svitnaði gegn Davíð

Golíat svitnaði gegn Davíð

Vorboðinn ljúfi, úrslitakeppnin, hófst í kvöld með tveimur leikjum. Deildarmeistarar Stjörnunnar fengu liðið úr 8. sætinu í heimsókn, Grindavík. Margur maðurinn hefur farið flatt á því að afskrifa Grindavík fyrirfram en þrátt fyrir allt er erfitt að sjá Grindjána standa í vegi fyrir sjóðheitum og vel mönnuðum Stjörnumönnum…

Spádómskúlan: Kúlan sér fyrir sér skemmtilegan og jafnan leik fram í þriðja leikhluta. Þá dofnar hratt yfir gulum og deildarmeistararnir landa þægilegum 95-77 sigri í fyrsta leik. Kúlan tekur sérstaklega fram að hún er í bjartsýnisgírnum.

Byrjunarlið:

Grindavík: Óli, Kuiper, Arnar, Ingvi, Clinch

Stjarnan: Hlynur, Tommi, Rozzell, Antti, Ægir

Gangur leiksins

Heimamenn tóku strax frumkvæðið í leiknum og eftir fjórar og hálfa tók Jóhann leikhlé í stöðunni 13-3. Undirritaður leyfir sér að fullyrða að Jóhann hafi minnt sína menn á að skora má líka fyrir innan þriggja stiga línuna og gulir fóru að ráði hans og leikur þeirra lagaðist mikið. Grindvíkingar náðu að minnka muninn í 17-15 og vonir glæddust um spennandi leik. Þá tók Superman Rozzell til sinna ráða og sá til þess að Stjarnan leiddi 24-18 eftir fyrsta leikhluta.

Stjörnumenn virtust ætla að keyra yfir gesti sína í öðrum leikhluta. Þrátt fyrir kannski full mörg þriggja stiga skot Grindvíkinga reyndu þeir áfram að sækja að körfunni en það gekk brösulega gegn þéttri vörn heimamanna. Um miðjan leikhlutann smellti Bæringsson einum þristi ofan í og Antti öðrum í kjölfarið, staðan 43-23 og allt útlit fyrir óspennandi seinni hálfleik. Meistari Óli Óla kallar hins vegar ekki allt ömmu sína og byrjaði að skóla Pryor til á póstinum og það svo illa að Arnar tók Pryor útaf og setti Bæringsson inn á! En það var of seint og Óli hélt uppteknum hætti og kórónaði frábæran leikhluta með bösser-þristi í lok leikhlutans og minnkaði muninn í 47-36. Afskaplega fallega gert af honum svona fyrir Grindvíkinga og hlutlausa áhorfendur.

Gestirnir héldu uppteknum hætti í þriðja leikhluta og Arnar, Kuiper og ekki síst Clinch fóru að fordæmi Óla. Sprettur gestanna náði hámarki þegar tvær mínútur lifðu af leikhlutanum er Clinch jafnaði metin í 63-63. Ægir og Rozzell voru þeir leikmenn heimamanna sem helst sýndu mótspyrnu, Ægir með hraða sínum og gegnumbrotum og Rozzell með ofurmannaskotum. Stjarnan leiddi þó fyrir lokaleikhlutann, 69-66, en gestirnir vafalaust sáttari með stöðuna á þessum tímapunkti.

Finnska undrið hafði verið duglegur að lauma einu og einu skoti ofan í fram að þessu og setti snögg 5 stig í upphafi fjórða. Grindvíkingar létu það ekkert á sig fá og minnkuðu muninn í 75-73 þegar 2 og hálf voru liðnar af fjórða. Arnar tók þá leikhlé en þrátt fyrir það voru Grindvíkingar komnir 75-76 yfir hálfri mínútu síðar en slík hafði staðan ekki verið síðan í stöðunni 2-3! Þá tók Ofurmennið við sér, setti tvö erfið stökkskot og þrist þar á eftir upp úr ENGU. Þar kynnti Ofurmennið alveg nýja skilgreiningu á hugtakinu ,,EKKERT“ og munu heimspekingar vafalaust taka þetta fyrir í vikunni. Þarna var leikhlutinn hálfnaður og staðan 82-76. Gestirnir börðust eins og ljón en það gerðu heimamenn líka og hver karfa eins og að sigra Sigtrygg í glímu. Þegar tvær mínútur voru eftir setti svo Pryor ógnarstórt hyldjúpt stökkskot eftir flotta boltahreyfingu, staðan 86-80. Næstu stig voru Bæringssonar undir körfunni og sigurinn þar með í höfn. Í staðinn fyrir brjálaða spennu fengu áhorfendur hræðilega langa og leiðinlega hálfa mínútu í lokin en fyrir utan hana var leikurinn góð skemmtun. Lokatölur 89-80 og vafalaust alger veisla framundan í þessari sem og öðrum seríum!

Menn leiksins

Finnska undrið og Ofurmennið fá að deila nafnbótinni að þessu sinni. Antti setti 19 stig og tók 5 fráköst, Rozzell setti 21 stig og gaf 5 stoðsendingar.

Tölfræðipunktar

Helsti munurinn á liðunum var skotnýtingin. Í tveggja stiga skotum voru heimamenn með 73% nýtingu (já það er satt) á móti 42% gestanna, í þristum voru heimamenn með 44% nýtingu en gestirnir aðeins 30%. Einnig má benda á að Grindvíkingar tóku 39 þriggja stiga skot sem er umtalsverður fjöldi. Á móti kom að Grindvíkingar tóku 20 sóknarfráköst á móti 2 og Arnar skoðar það vafalaust fyrir næsta leik.

Kjarninn

Stjörnumenn unnu leikinn og það er markmiðið. Í öðrum leikhluta leiddi liðið með 20 stigum en misstu forskotið niður. E.t.v. er það áhyggjuefni fyrir Stjörnumenn en þetta er úrslitakeppnin og Grindvíkingar eru engir aukvisar þó svo að 8. sætið hafi orðið þeirra örlög í vetur. Heimamenn skoruðu síðustu 5 stig leiksins og vörðust vel i lokin, kannski má segja að þar hafi breiddin talað.

Grindvíkingar eiga mikið hrós skilið og þakkir fyrir að búa til þrælskemmtilegan leik og næstum því æsispennandi! Það er ekki alltaf þannig þegar liðið í fyrsta og áttunda eigast við. Ólafssynir eru þarna fremstir í flokki og bara hundfúlt að Lalli er ekki lengur í baráttunni. Grindvíkingar hafa sýnt sjálfum sér það að þeir eiga a.m.k. einhvern séns gegn andstæðingum sínum og spennandi að sjá hvernig leikur 2 í Grindavík þróast.

Tölfræði leiksins

Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -