spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvík lagði ÍR í Ljónagryfjunni

Njarðvík lagði ÍR í Ljónagryfjunni

Úrslitakeppnin er byrjuð!

Njarðvíkingar tóku á móti ÍR í Ljónagryfjunni í kvöld í fyrsta leik átta liða úrslita Dominos deildar karla. Ekki hefur munað miklu á milli liðanna í leikjum þeirra í deildinni í vetur. Njarðvíkingar unnu með 6 stigum í Reykjavík og ÍRingar unnu eftir framlengingu með 3 stigum í Njarðvík.

Það voru ÍRingar sem settu fyrstu stigin eftir um tveggja mínútna leik. Kannski smá úrslitakeppnis spenna hjá báðum liðum. Það tók Njarðvíkinga 6 stig frá ÍR og tæpar 4 mínútur að komast á blað. Leikhlutinn var jafn og spennandi en bæði lið gerðust sek um mikið af mistökum. ÍRingar kláruðu þó leikhlutann betur. Staðan eftir fyrsta leikhluta 13 – 17.

Lítið var skorað fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta eins og í þeim fyrsta. ÍRingar leiddu leikinn framan af. En Logi Gunnarsson setti tvo þrista rétt fyrir miðjan leikhlutann og jafnaði leikinn. Logi Gunnarsson var á eldi í öðrum leikhluta og endaði með 15 stig í fyrri hálfleik. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var bestur ÍRinga og setti 11 stig og tók 6 fráköst. Staðan í hálfleik 37 – 34.

Njarðvíkingar komu brjálaðir inn í þriðja leikhluta og settu 7 stig gegn 0 stigum ÍRinga fyrstu rúmu mínútuna. Jeb Ivey og Kevin Capers fóru að láta að sér kveða. Njarðvíkingar leiddu en ÍRingar gerðu vel í að hanga í þeim. ÍRingar sóttu fast að Njarðvíkingum og þegar um mínúta var eftir af leikhlutanum náðu þeir að jafna. Kevin Capers var rekinn út úr húsi fyrir að slá til Jóns Arnórs Sverrissonar þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Alveg glórulaust hjá Capers sem var búin að eiga sinn besta leikhluta. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhluta 58 – 56.

Það var lítið skorað í byrjun síðasta leikhluta. Vörn beggja liða var í miklu fjöri og erfiðlega gekk hjá báðum liðum að finna opin skot. Njarðvíkingar náðu að skapa sér smá forystu sem þeir héldu fram eftir leikhlutanum. ÍRingar sóttu fast að þeim á lokamínútunum og þegar um ein og hálf mínúta var eftir af leiknum náðu ÍRingar að jafna 71 – 71. Elvar Már Friðriksson setti svo þrist og það dugði Njarðvíkingum til sigurs. ÍR braut og Elvar kláraði leikinn af vítalínunni með því að setja bæði vítaskotinn. Lokatölur 76 – 71.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Jeb Ivey, Eric Katenda, Maciek Baginski og Mario Matasovic.

ÍR: Gerald Robinson, Kevin Capers, Matthías Orri Sigurðsson, Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Sigurkarl Róbert Jóhannesson.

Þáttaskil:

Brottrekstur Kevin Capers þegar hann loksins var farinn að sýna eitthvað var ÍRingum dýrkeyptur. Aðrir leikmenn stigu upp, en hvernig hefði þetta farið án þessarar ákvörðunar Capers?

Hetjan:

Logi Gunnarsson hélt liði Njarðvík gangandi í fyrstu tveim leikhlutunum en maður leiksins var hinn stigalausi Ólafur Helgi Jónsson sem spilaði heimsklassa vörn allar rúmu 21 mínúturnar sem hann spilaði. Njarðvíkingar voru + 15 með hann inn á.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson var besti maður ÍRinga. En hann setti 20 stig og tók 10 fráköst.

Kjarninn:

Njarðvík með góðan sigur í miklum baráttu leik. Njarðvíkingar ögn nærri undanúrslitunum en enn þá mikið verk óunnið. ÍRingar hljóta að mæta brjálaðir til leiks á heimavelli á sunnudaginn, en það verður erfitt fyrir þá án Kevin Capers sem er líklegast að fara í bann eftir brottrekstur kvöldsins.

Tölfræði

Myndasafn

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -