Valur setti aðra hendina á deildarmeistaratitilinn í kvöld með sigri á Keflavík. Leikurinn var í 25. umferð Dominos deildar kvenna og eru einungis tvær umferðir eftir eftir kvöldið.
Lokastaða 80-68 fyrir Val sem er nú í góðri stöðu á toppi deildarinnar.
Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:
Tók tíma fyrir Keflavík að finna takt
Valsarar voru sterkari heilt yfir í fyrri hálfleik en Keflavíkur vörnin kom þó í veg fyrir að Valur kláraði ekki leikinn á fyrstu fimmtán mínútunum. Keflavík náði engum takti sóknarlega framan af. Það breyttist þó í lok seinni hálfleiks þar sem liðið fór allt í einu að setja öll skotin, taka góðar ákvarðanir og finna réttu mennina. Þar með náði liðið áhlaupi sem kom þeim aftur inní leikinn. Að lokum fór svo að Valur tók betri ákvarðanir á lokametrunum sem vann leikinn.
Sara er mætt
Það tók Söru Rún Hinriksdóttur einungis örfáar mínútur að ná taktinum í leik Keflavíkur. Eftir að það tókst var hún svo sannarlega mætt. Hún passaði eins og flís við rass í þetta Keflavíkurlið og hreinlega líkt og hún hefði aldrei farið. Sara endaði með 23 stig og 10 fráköst. Þá sýndi hún fádæma baráttu og ljóst að gæðin eru mikil sem á eftir að nýtast Keflavík í þeirri baráttu sem framundan er.
Vörn Keflavíkur öflug
Einkenni Keflavíkur hefur í gegnum tíðina verið agaður og geggjaður varnarleikur. Liðið hefur átt á köflum erfiðara en áður með að halda í þetta einkenni sitt á tímabilinu en það horfir til bjartari tíma ef marka má leikinn í kvöld. Heilt yfir var varnarleikur liðsins sterkur, liðinu tókst ágætlega að draga úr Helenu í kvöld. Valsarar voru hinsvegar einnig öflugir og fundu leiðir í gegnum Keflavík. Keflavík getur hinsvegar án efa byggt á frammistöðu kvöldsins og farið nokkur brattar inní baráttuna sem framundan er.
Valur óstöðvandi?
Valsarar hafa nú unnið sextán leiki í röð í deildarkeppninni. Liðið fékk ágætis mótspyrnu í kvöld en stóðst hana með mikilli prýði. Liðið þurfti að bregðast við og breyta sínum leik sem tókst virkilega vel. Það sýndi sig hinsvegar í kvöld að það eru lið sem standast þeim snúninginn og má því gera ráð fyrir frábærri úrslitakeppni.
Myndasafn (Væntanlegt)
Viðtöl eftir leik: