Það verður ekkert úr því að Davidson endurtaki leikinn og fari í Mars fárið annað árið í röð en liðið féll úr leik í gær.
Davidson mætti liði Saint Louis í undanúrslitum Atlantic 10 deildarinnar í Brooklyn Center í gær. Davidson endaði í öðru sæti deildarkeppninnar en Saint Louis í því sjötta. Því miður sáu Jón Axel Guðmundsson og félagar ekki til sólar í þessum leik.
Herfilegur seinni hálfleikur varð liðinu að falli og að lokum fór svo að Saint Louis unnu öruggan sigur 67-44 gegn Davidson. Davidson hitti mjög illa fyrir utan þriggja stiga línuna eða 1 af 11 skotum sínum og má segja að það hafi verið banabiti liðsins.
Jón Axel var að vanda öflugur í liði Davidson og endaði með 15 stig og 5 fráköst. Davidson féll þar með úr leik en liðið var í góðri stöðu að ná í Mars fárið þetta árið.