Körfuknattleiksþing KKÍ fer fram í Laugardalnum þessa stundina þar sem helstu ákvarðanir um framtíð körfunnar verða teknar.
Þingið hófst í morgun með setningarræðu formanns. Nú eftir hádegi hófust nefndarstörf og eru tillögur nefndanna lagðar fyrir þessa stundina en allar þingsályktunartillögur má finna hér.
Rétt í þessu var þingsályktunartillaga um þjóðarleikfang samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Í þeirri ályktun er þungum áhyggjum af stöðu æfinga-og keppnisaðstöðu landsliða Íslands lýst.
Ályktunina má finna hér að neðan:
Körfuknattleiksþing 2019 lýsir yfir þungum áhyggjum af aðstöðuleysi landsliða í körfuknattleik. Öllum landsliðum KKÍ, jafnt yngri landsliðum sem A-landsliðum, vantar varanlegt heimili til æfinga og keppni. Fullyrða má að aðstöðuleysið sé farið að hamla eðlilegri framþróun í afreksstarfi hreyfingarinnar. Körfuknattleiksþing hvetur stjórnir KKÍ og Íþrótta- og Ólympíusambandsins (ÍSÍ), sem regnhlífarsamtök hreyfingarinnar, til að taka höndum saman við aðrar íþróttagreinar, sem svipað er ástatt um, með það fyrir augum að hefja tafarlausar viðræður við ríkisvaldið um varanlega lausn.
Greinagerð:
Laugardalshöllin hefur verið heimavöllur landsliðs körfuknattleiks um langt árabil en hún er fyrir löngu orðin barn síns tíma og nær ekki að þjóna því hlutverki sem henni er ætlað sem þjóðarleikvangur. Þegar keppt er í undankeppnum Evrópumóta og heimsmeistaramóta þarf að sækja um undanþágur hjá FIBA þar sem höllin uppfyllir ekki skilyrði til mótahalds eins og kröfur hafa verið undanfarin ár. Óvíst er að slíkar undanþágur fáist öllu lengur.
Laugardalshöllin gegnir margþættu hlutverki; Hún er sýningarhöll, tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð svo fátt eitt sé nefnt auk þess að vera íþróttahús í því hverfi þar sem hún er staðsett. Í seinni tíð er Höllin sjaldan laus fyrir almennar landsliðsæfingar og og er það oft ærið verkefni að finna laus hús til æfinga Landsliðin okkar þurfa nauðsynlega á varanlegri æfingaaðstöðu að halda ásamt því að eignast keppnisaðstöðu sem uppfyllir kröfur nútímans.