Í kvöld fór fram leikur Breiðabliks og Njarðvíkur í næst seinustu umferð úrvalsdeildar karla tímabilið 2019. Blikar voru ekki langt frá því að vinna Njarðvík í seinustu viðureign liðanna og því stóðu vonir til að um spennandi leik yrði að ræða. Svo varð hins vegar ekki: Njarðvíkingar voru fljótir að skilja sig frá Breiðablik sem átti eiginlega aldrei séns í þessum leik. Njarðvík vann öruggan sigur, 70-102, gegn löngu föllnum Blikum.
Gangur leiksins
Leikurinn var framan af nokkurn veginn eins og við var að búast. Njarðvík voru duglegir að hreyfa boltann sóknarlega og nýttu gæði stóru leikmanna sinna, enda voru Eric Katenda og Mario Matasovic með samanlögð 17 stig eftir fyrsta leikhluta og staðan í fráköstum 5-13. Blikar gátu lítið gert gegn kæfandi vörn Njarðvíkur og staðan því 13-26 eftir 10 mínútur.
Breiðablik hélt áfram að berjast en gæðin í spili Njarðvíkinga var einfaldlega meira. Gestirnir héldu áfram að auka forystuna og rúlluðu vel á mannskapnum án þess að missa spilið niður á eitthvað lægra plan. Heimamenn voru fljótt byrjaðir að pirra sig dómgæslunni og harðri vörn Njarðvíkur. Á meðan jókst munurinn og staðan í hálfleik var orðin 30-53 fyrir Ljónunum.
Logi Gunnarsson kallaði yfir mannskapinn eftir þrjár mínútur af seinni hálfleiknum að þetta væri of auðvelt, en Blikar höfðu þá skorað 10 stig gegn 10 hjá Njarðvíkingum. Gestirnir hertu sig þá aðeins og hófu að taka þessu alvarlega, en Breiðablik var komið á sporið og náðu að klóra aðeins í bakkann. Það varði þó ekki lengi og eftir rúmar 6 mínútur fór að fjara aðeins undan Blikum á ný og Njarðvík jók muninn aftur svo staðan var 50-79 þegar 10 mínútur lifðu leiks.
Lokaleikhlutinn var ekki sérstaklega spennandi og allt löngu búið þegar nóg var eftir og liðin skiptu varamannabekkjunum inn á. Njarðvík vann að lokum 70-102.
Tölfræðihornið
Breiðablik, sem hefur hingað til tekið flesta og sett flesta þrista í deildinni, voru ískaldir í fyrri hálfleik og settu á heildina aðeins 6 þrista í 30 tilraunum (20% þriggja stiga nýting). Njarðvíkingar voru duglegir að frákasta öllum þessum klikkuðu skotum heimamanna og tóku 50 fráköst gegn aðeins 32 hjá Blikum. Njarðvík hitti einfaldlega betur úr skotum sínum í leiknum (51% skotnýting gegn 35% hjá Breiðablik) og unnu betur saman (25 stoðsendingar gegn 14).
Kjarninn
Grænu gestirnir voru nokkrum númerum of stórir fyrir Blikana í Smáranum í kvöld. Kópavogspiltarnir höfðu fá svör við Njarðvík í teignum og þó að miðherjinn þeirra hafi verið ágætur á hinum enda vallarins voru Njarðvíkingar með fleiri vopn og unnu öruggan sigur.
Samantektin
Þó að Njarðvík hafi tekið þennan leik nokkuð örugglega þá sáust þó svipaðir veikleikar í þessum leik og í seinasta leik þeirra gegn ÍR. Þó þeir hafi sterka sóknarmenn í teignum virðast þeir ráða illa við stóra og sterka miðherja eins og Sigurð Gunnar og Sveinbjörn. Það kom þó ekki að sök þar sem að vörn Breiðabliks gat lítið gegn sókn Ljónanna.
Blikar eru eftir sem áður fallnir og spurning hvernig þeir mæti í seinasta leikinn sinn gegn KR um næstu helgi. Munu þeir sýna stoltið eða liggja flatir fyrir stórveldinu svokallaða? Kemur í ljós.
Tölfræði leiksins
Viðtöl eftir leik:
Árni Elmar: Við erum ekki að keppa fyrir neinu
Árni Elmar var að vonum nokkuð daufur eftir að Blikar höfðu tapað ansi illa fyrir Njarðvík á þeirra eigin heimavelli: “Við komum frekar daprir inn í þennan leik, ekki mikil barátta í okkur og svona. Við erum ekki að keppa fyrir neinu, en það er bara eins og það er.”
Blikar hafa yfirleitt verið frekar sterkir fyrir utan þriggja stiga línuna en þeim gekk erfiðlega að finna netið í kvöld. “Þetta er bara einn af þessum dögum þar sem við hittum ekki neitt. Við lifum og deyjum með þriggja stiga línunni. Hittum ekki neitt í dag og það sást.” Breiðablik setti aðeins 6 þrista af 30 í kvöld en eru yfirleitt að setja í kringum 12 að meðaltali í leik úr tæpum 37 tilraunum.
Aðspurður um hagi liðsins nú þegar tímabilið er að líða undir lok sagði Árni að mórallinn væri enn góður, eins og hann hefði verið í allan vetur, og að þetta tímabilið hefði verið skemmtilegt þrátt fyrir töp. Um mögulegar flutninga leikmanna til annarra liða eftir tímabilið sagði hann að það væri of fljótt að segja til um það strax.
“Það verður bara tekið eftir tímabilið.”
Einar Árni: Fínt að geta rúllað á mannskapnum
Einar Árni var nokkuð nægður með varnarleik sinna manna í fyrri hálfleik enda voru Njarðvíkingar að hans sögn duglegir að leita í teiginn, vinna saman sem lið og að finna aukasendinguna. Smá hökt í byrjun seinni hálfleiks olli honum þó ekki miklum áhyggjum.
“Þeir skora 18 stig á fyrstu 6 og hálfri mínutu seinni hálfleiks en síðan 2 stig í þrjá og hálfa. Við hefðum auðvitað viljað halda þeim neðar, en þetta er ekkert sem ég hef stórvægilegar áhyggjur af. Það var fínt að geta rúllað á mannskapnum.”
Hann sá ekki heldur tilefni til að hafa áhyggjur af því að miðherjar andstæðinga Njarðvíkur í seinustu tveimur leikjum höfðu átt góða leiki gegn þeim. “Við vorum ekkert í neinum vandræðum með Sveinbjörn, þannig séð. Siggi átti náttúrulega bara frábæran leik gegn okkur seinast.”
Að lokum vildi hann ekki lesa allt of mikið í þennan leik með tilliti til komandi úrslitakeppni og mat það þannig að þetta væri “auðvitað ekki marktækasti leikurinn, munurinn orðinn nokkuð mikill fljótlega í byrjun leiks og mikilvægt að halda sjó þá. Ég hef litlar áhyggjur.”