Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka í Domino’s deild karla, mun láta af störfum sem þjálfari liðsins að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Þetta staðfesti Ívar í samtali við blaðamenn mbl.is.
Ívar hefur þjálfað Hauka frá árinu 2011 og vann meðal annars deildarmeistaratitil með liðinu árið 2018, auk þess sem liðið komst í lokaúrslit deildarinnar vorið 2016, þar sem Haukar biðu lægri hlut gegn KR. Í augnablikinu sitja Haukar í níunda sæti deildarinnar og eiga enn möguleika á að ná sæti í úrslitakeppni deildarinnar, en liðið er tveimur stigum á eftir bæði ÍR og Grindavík þegar tveir leikir eru eftir af tímabilinu.