Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga í Domino’s deild karla, mun hætta þjálfun liðsins að loknu yfirstandandi tímabili. Þetta staðfestu Grindvíkingar á Facebook síðu körfuknattleiksdeildar nú fyrir skemmstu.
Jóhann Þór hefur þjálfað Grindavík síðustu fjögur tímabil og kom liðinu meðal annars í lokaúrslit Íslandsmótsins árið 2017, þar sem liðið beið lægri hlut gegn KR í oddaleik. Jóhann ætlar hins vegar að láta staðar numið eftir þetta tímabil, og mun taka sér frí frá allri þjálfun. Grindvíkingar eru nú þegar byrjaðir að leita að eftirmanni Jóhanns, en liðið situr sem stendur í 7. sæti Domino’s deildarinnar, og á góða möguleika á að ná sæti í úrslitakeppni deildarinnar.