Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Canisius Golden Griffins í bandaríska háskólaboltanum, mun leika með Keflavík út keppnistímabilið í Domino’s deild kvenna, en Sara kemur hingað til lands um miðjan mars þegar tímabilið vestra klárast. Þetta staðfestu Keflvíkingar á Facebooksíðu sinni nú fyrir skemmstu.
Sara hefur leikið fyrir Canisius háskólann frá árinu 2015 og er nú á lokaári sínu með liðinu. Í vetur hefur hún spilað 25 leiki með liðinu og skorað að meðaltali 13 stig og tekið 8,2 fráköst í leik. Það er því ljóst að koma Söru ætti að styrkja Keflvíkinga verulega í þeirri baráttu sem er framundan í úrslitakeppni deildarinnar.