spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2021Tímavélin: Nítján ár frá fyrsta landsleik Jóns Arnórs

Tímavélin: Nítján ár frá fyrsta landsleik Jóns Arnórs

Ísland mætir Portúgal í forkeppni Eurobasket 2021 í kvöld. Leikurinn er sá þriðji í þessari forkeppni en Ísland er enn í leit að sigri. Leikurinn verður síðasti landsleikur Jóns Arnórs Stefánssonar og Hlyns Bæringssonar fyrir Íslands hönd en hann hafa ákveðið að leggja landsliðsskónna á hilluna eftir þennan landsleikjaglugga.

Jón Arnór Stefánsson lék sinn fyrsta landsleik árið 2000 og hefur því leikið fyrir Íslands hönd í 19 ár. Hann á að baki 99 landsleiki en leikur kvöldsins verður sá hundraðasti í röðinni.

Jón Arnór lék sinn fyrsta landsleik gegn Noregi á Norðurlandamótinu árið 2000. Í umfjöllun DV fyrir mótið 1. ágúst 200 var fjallað um þá ungu leikmenn sem komu inní A-landsliðið fyrir þetta verkefni. Þetta voru þeir Logi Gunnarsson, Jakob Örn Sigurðarson, Sævar Sigmundsson og auðvitað Jón Arnór Stefánsson.

Leikið var í Keflavík en þetta mót er mjög eftirminnilegt í minnum körfuboltafólks. Fyrsti landsleikur Loga fyrir Íslands hönd endaði með ansi öruggum sigri Íslands á Noregi 92-66. Logi lék nokkuð stórt hlutverk í leiknum, skoraði sex stig og gaf tvær stoðsendingar.

Herbert Arnarson var stigahæstur í Íslenska liðinu með 18 stig en til gamans má geta að hann var í hlutverki sérfræðings í útsendingu RÚV á leik Íslands og Finnlands síðasta föstudagskvöld. Í liðinu voru einnig leikmenn á borð við Fal Harðarson, Gunnar Einarsson, Friðrik Stefánsson, Jón Arnar Ingvarsson, Fannar Ólafsson og Baldur Ólafsson svo einhverjir séu nefndir.

Í umfjöllun DV um leikinn þann 2. ágúst 2000 segir að baráttan hafi verið mikil hjá Íslenska liðinu, hungrið og ákafinn hafi skinið úr augum leikmanna. Í viðtali við Morgunblaðið þennan sama dag sagði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari A-landsliðsins á mótinu eftirfarandi: „Ég er einnig mjög ánægður með ungu leikmennina sem lék skínandi vel og gefur frammistaða þeirra tilefni til mikillar bjartsýni hvað framtíðina varðar,”

Segja má með sanni að Friðrik Ingi hafi verið ansi sannspár þegar hann lét þessi orð útúr sér því nú átján árum seinna eiga þrír af fjórum nýliðum á þessu móti farsælan landsliðsferil að baki. Það sem meira er hafa þessir leikmenn verið í lykilhlutverkum er Íslenska landsliðið lék á tveimur stórmótum í röð (Eurobasket 2015 og 2017).

Ísland tefldi fram tvem liðum þetta árið, A-landsliði og svokölluðu Elítuliði þar sem yngir leikmenn voru valdir. Elítan vann innbyrgðisleik liðanna og hafa landsliðsmenn fengið að heyra af því síðustu árin.

Nítján árum og 99 landsleikjum síðar er Jón Arnór að leggja landsliðsskóna á hilluna. En Jón viðurkenndi í samtali við Körfuna fyrr í vikunni að miklar breytingar hefðu átt sér stað í kringum landsliðið á þessum tíma.

Jón Arnór ræddi við blaðamann Körfunnar í aðdraganda landsleikjanna þar sem hann fór yfir ferilinn og ákvörðunina að hætta á þessum tímapunkti. Viðtalið má finna hér að neðan:

Leikurinn fer fram í Laugardalshöll kl 19:45 í dag. Búist er við hörku stemmningu og vonast eftir fullu húsi til að hjálpa strákunum að sækja sigur og kveðja Jón Arnór og Hlyn Bæringsson. Miðasala er hafin á Tix.is. 

Fréttir
- Auglýsing -