Þeir fjölmörgu sem gerðu sér ferð í Laugardalshöllina í bikarvikunni hafa væntanlega tekið eftir kynningarefni um verkefni KKÍ sem ber heitið Driplið.
Driplið er tækniþjálfun sem er ætlað krökkum á aldrinum 9-11 ára. Því er ætlað að auka tæknilega færni barna og auka áhuga á tækniæfingum.
Verkefnið er styrkt og unnið í samstarfi við FIBA en krakkar á aldrinum 9-11 ára geta safnað armböndum sem gefa til kynna hvaða færni þeir hafa náð. Undanfarna mánuði hefur KKÍ undirbúið þetta verkefni með samstarfsaðilum sínum.
Driplinu er skipt í þrjá aldursflokka og hver aldursflokkur ber einn lit. Hver litur inniheldur 17 æfingar sem sýndar eru í 7 myndböndum. Æfingarnar eru settar upp þannig að iðkandi á að geta æft sig hvar sem er, jafnt inni sem úti, einn eða með fleirum.
Nánari upplýsingar um Driplið má finna á heimasíðu KKÍ.