Fimm úrslitaleikir í Geysisbikarnum fóru fram í gær í Laugardalshöllinni þar sem leikið var til úrslita í 9. flokki, unglingaflokki, stúlkna- og drengjaflokki. Fín stemmning var í Höllinni og umgjörðin frábær.
Sú merkilega staðreynd gerðist að systurnar Anna Ingunn og Agnes María Svansdætur hlutu báðar verðlaun sem leikmaður úrslitaleiksins. Anna Ingunn fyrir frammistöðu sína í úrslitum stúlknaflokks en Agnes fyrir 9. flokk stúlkna.
Á rúmum 26 mínútum spiluðum skilaði Agnes María 23 stigum, 4 fráköstum, 4 stoðsendingum og 6 stolnum boltum. Þá setti hún öll 5 vítaskot sín niður í leiknum. Viðtal við Agnesi má finna hér.
Á tæpum 28 mínútum spiluðum skilaði Anna Ingunn 19 stigum, 4 fráköstum, 2 stoðsendingum og 10 stolnum boltum. Viðtal við Önnu eftir leikinn má finna hér.