spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÞórsarar steinlágu fyrir baráttuglöðum Grindvíkingum

Þórsarar steinlágu fyrir baráttuglöðum Grindvíkingum

Skammt er stórra högga á milli hjá mfl kvenna þessa helgina. Tveir leikir á tveimur dögum. Í dag eru andstæðingarnir af Reykjanesinu, eða frá Grindavík.

Staða liðanna í deildinni fyrir leikinn var þannig að Grindavík er með 18 stig eftir 12 leiki en Þór með 14 eftir 10 leiki. Bæði lið hafa tapað þremur leikjum, einum fleiri en topplið Fjölnis. Það er því ljóst að það lið sem fer með sigur af hólmi í dag mun þjarma að Fjölni á lokasprettinum.

Byrjunarlið Þórs er þannig: Kristrún, Silvía, Hrefna, Rut og Karen

Byrjunarlið Grindavíkur er þannig: Hrund, Andra Björg, Ingibjörg, Elsa og Ólöf

1. leikhluti.

Fyrsti leikhluti byrjaði ekki ósvipað og í gær, körfur beggja liða ískaldar en þó aðeins skárra hjá gestunum sem gerðu fjögur fyrstu stigin á tveimur á hálfri mínútu. Það var ekki fyrr en fjórar mínútur voru liðnar sem Þór náði að setja sín fyrstu stig en það var Kristrún sem braut ísinn. Sem betur fer fyrir heimastúlkur þá höfðu gestirnir ekki bætt neinu við sín fjögur stig og staðan eftir 4 mínútur því 2 – 4. Aðeins lifnaði yfir leiknum eftir þetta og aftur voru það gestirnir sem stigu upp og settu niður körfur. Á næstu mínútum bættu þær vel í og komust í 5 – 11 og virtust mun líklegri en heimastelpur á þessum tímapunkti því að það datt ekkert ofan í hjá Þór og aukinheldur fóru sendingar sem alla jafna rata í hendur samherja, út um þúfur. Eitthvað agalegt stress í gangi í fyrsta leikhluta sem endar með 6 stiga forystu gestanna 7 – 13.

2. leikhluti.

Nú er heldur betur eitthvað meira en lítið að hjá heimastúlkum því eftir 2 mínútur er munurinn kominn upp í 12 stig 9 – 21. Pressuvörn gestanna hefur sett heimamenn alveg út af sporinu. Hvorki gengur né rekur hjá Þórsurum upp við körfu Grindvíkinga og auk þess halda þær áfram að glata boltanum þegar þær bera hann upp völlinn. Það er þörf á hugarfarsbreytingu því það lítur út fyrir að þær hafi enga trú á því að geta lagt gestina að velli. Leikhlé hjá heimaliðinu og það er vonandi að þjálfarinn hafi getað barið smá trú inn í liðið.

Aleinar undir körfunni koma þær boltanum ekki einu sinni ofan í. Fljótlega eftir leikhléð komu heimastelpur til baka og settu aukinn kraft í vörnina og fóru að hreyfa sig meira án bolta til að brjóta upp pressuvörn andstæðinganna. Þetta skilaði sér í því að þær minnkuðu muninn úr 13 – 26 þegar 6:30 voru eftir af leikhlutanum í 19 – 26 þegar 3:50 voru eftir. Lokakafla leikhlutans héldu bæði lið haus og munurinn hálfleik 10 stig. Þórsarar hafa aðeins náð að bæta leik sinn síðustu mínútur fyrri hálfleiks og náð að svara pressuvörninni af Reykjanesi. Það er því góð von að seinni hálfleikur verði mun skárri en sá fyrri og satt best að segja þarf ekki mikið að breytast til að svo verði.

Hálfleikur 27 – 37.

3. leikhluti

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri. Það virtist gjörsamlega vonlaust fyrir heimaliðið að skora körfu. Staðan breyttist heimaliðinu í óhag því gestirnir kunnu sig ekki og settu 7 fyrstu stigin í hálfleiknum. Þegar rúmlega 6 mínútur voru liðnar af leikhlutanum komu fyrstu stig Þórsara en þá setti Silvía 3ja stiga körfu sem Særós fylgdi eftir með 2ja stiga körfu og vænkaðist þá hagur Strympu. Þetta var þó skammgóður vermir því gestirnir bættu aftur í og leiddu eftir 3ja leikhluta með 16 stigum 35 – 51. Þetta er ekki óyfirstíganlegt en það þarf þó ýmislegt að breytast til að þetta bil minnki, sérstaklega þó að klára auðveldu skotin með körfu, það hefur sárlega vantað í dag.

4. leikhluti.

Loksins byrjuðu Þórsarar betur en andstæðingarnir í leikhluta og settu fljótlega stig á þær og svo aftur. Það er allt hægt og vörnin þarf að hirða fráköst og koma þeim í erfið skot. Þetta er erfitt enda 16 stiga forskot, en það er á hreinu að það verður að gera tilraun til að vinna þetta upp til að það geti gerst. Þær virðast ætla að selja sig dýrt í seinasta leikhlutanum heimamenn en spurning hvort það sé of seint.

Gestirnir héldu haus þrátt fyrir þetta áhlaup heimaliðsins og náði aftur 16 stiga forystu. Auðveldu körfurnar létu standa á sér og það telur hratt.

Leikhlé þegar 3:13 eru eftir og staðan orðin 43 – 58. Það virðist ekkert bíta á bláklædda Grindvíkinga.

Þórsarar mættu grimmar í vörnina eftir leikhléð og pressuðu gestina sem virðast vera orðnar þreyttar enda hættar sjálfar með pressuvörn. Kapp er þó bets með forsjá og þegar Þórsarar höfðu sett körfu og unnið boltann sendu þær hann beint á gestina sem skoruðu. Þrátt fyrir góðan vilja þessar síðustu mínútur og baráttu á báðum endum kom þessi baráttukippur því miður bara allt of seint. Þessi vilji hefði þurft að vera til staðar allan leikinn en ekki bara rétt í lokin. Það verður þó að gefa heimaliðinu það að með þessum baráttuhug í lokin þá náðu þær að vinna síðasta leikhlutann eftir að Grindvíkingar höfðu unnið hina þrjá nokkuð örugglega og bætt þannig við forskotið eftir hvern leikhluta.

Lokastaðan 50 – 62 fyrir gestina.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir & viðtal / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -