spot_img

Þórssigur gegn ÍR

Laugardaginn 9. febrúar tók Þór á móti ÍR-ingum í 1. deild kvenna. Leikurinn hefur alla burði til að verða jafn og skemmtilegur enda stutt á milli liðanna í deildinni.

1. leikhluti

Byrjunarlið Þórs: Kristrún, Silvía, Hrefna, Rut og Karen

Byrjunarlið ÍR: Arndís, Nína, Hrafnhildur, Birna og Jóhanna.

Fyrstu mínúturnar var einhver kuldahrollur í báðum liðum og var staðan 2 – 0 fyrir ÍR í nokkrar mínútur. Þá bráðnaði ísinn af heimastelpum sem settu niður nokkra bolta á móti einum frá gestunum og náðu 6 stiga forystu 10 – 4 þegar 5 mínútur voru liðnar. Munurinn hélst í 4 – 8 stigum út leikhlutann þar sem flautukarfa frá Hrefnu jók muninn upp í 7 stig sem leiddi til þess að leikhlutinn endaði 20 – 13.

2. leikhluti.

Það mætti halda að stelpurnar hefðu farið út í leikpásunni eftir 1. leikhluta því rétt eins og í þeim fyrsta voru bara 2 stig skoruð fyrstu tæpu 3 mínúturnar og það voru gestirnir eins og í upphafi leiks. Þessi annar leikhluti spilast ekki ósvipað og sá fyrsti þ.e.a.s. stelpur beggja liða hitnuðu eftir nokkrar mínútur og settu niður góð stig. Munurinn hélst að mestu á þessu bili 4 – 8 stig. Þegar 2 mínútur voru eftir náðu gestirnir þó að koma muninum í 3 stig 27 – 24 en því var svarað um hæl með 6 stigum og stöðunni breytt í 33 – 24. Eitt vítaskot frá ÍR í blálokin rataði ofan í körfuna og lagaði stöðuna lítið eitt fyrir Breiðhyltingana. Staðan í hálfleik því 33 – 25 fyrir heimasæturnar.

Stigaskorið í hálfleiknum skiptist nokkuð jafnt og voru það Kristrún, Rut og Hrefna sem skoruðu mest en allt byrjunarliðið var löngu komið á blað fyrir lok hálfleiksins. Nú vantar bara stig af bekknum en þær Eva, Særós og Ásgerður hafa hirt fráköst og lagt sitt þannig á vogarskálarnar.

3. leikhluti.

Það er nokkuð ljóst að það hefur verið kynnt all svakalega í búningsklefa Þórs í hálfleik því þær komu sprækar til seinni hálfleiks og settu strax 2 góðar körfur og rifu sig frá gestunum með því að auka muninn í 12 stig. ÍR stúlkur náðu ekki að setja körfu gegn góðri vörn heimaliðsins fyrr en eftir 2:30 af hálfleiknum, fylgdu því eftir með annarri en Þórsarar svöruðu alltaf jafnharðan og gott betur en það og munurinn þegar 4 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta orðinn 16 stig 45 – 29.

Þar með var tónninn gefinn fyrir það sem koma skyldi því að Þórsarar voru ekkert á þeim buxunum að leyfa ÍR-ingum að komast inn í leikinn og luku leikhlutanum með því að stela boltanum og skora aðra flautukörfu sína í leiknum en í þetta sinn var það Silvía. Staðan eftir 3. leikhluta 50 – 34.

4. leikhluti.

Það er fátt hægt að segja um 4. leikhluta. Bæði lið hætt, en hvort á sínum forsendunum. ÍR-ingar búnar að gefa frá sér að fá eitthvað út úr þessum leik og Þórsarar að klára án þess að sprengja sig enda leikur við Grindavík á morgun. Liðin reyndu þó að gera góða hluti en baráttan lýsandi fyrir að úrslitin voru gott sem ráðin. Þórsarar einfaldlega betra liðið í þessum leik og verðskuldaði þennan sigur sem kom í hús með góðum þriðja leikhluta þar sem þær náðu að slíta sig vel frá andstæðingnum. Sá munur sem náðist í 3ja leikhluta hélst og gott betur í þeim fjórða og endaði leikurinn með 16 stiga mun 62 – 46.

Þetta var góður leikur af hálfu Þórs og nú þurfa þær að jafna sig áður en næsta verkefni verður tekið jafn föstum tökum og þetta í dag.

Á morgun er ljóst að það má ekki bíða í margar mínútur í hverjum leikhluta með að skora fyrstu stigin því að Grindavík er það sterkt að það mun refsa fyrir slíkt.

Sterkust heimastúlkna í dag var Rut með 21 stig og 12 fráköst og svo voru Kristrún með 10 stig og 12 fráköst, Silvía 12 stig og 9 fráköst og Hrefna hafði frekar hægt um sig, verður heitari á morgun en setti samt 11 stig. Bekkurinn svaraði kallinu og Ásgerður og Eva settu báðar körfu undir lokin. Gott að fá stig af bekknum.

 

Umfjöllun, myndir, viðtal / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -