Skallagrímur sigraði Stjörnuna, 67-63, heima í Borgarnesi fyrr í kvöld í átjándu umferð Dominos deildar kvenna.Eftir leikinn er Stjarnan í 5. sæti deildarinnar með 10 sigra, 20 stig eftir 18 fyrstu leikina. Skallagrímur er sæti neðar, í því 6. með 6 sigra, 12 stig.
Líkt og svo oft áður í vetur voru það heimakonur í Skallagrím sem byrjuðu leikinn betur en andstæðingurinn. Leiddu með 3 stigum eftir fyrsta leikhluta, 18-15. Þegar í hálfleik var komið höfðu þær svo bætt við þá forystu sína, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja var staðan 38-31 þeim í vil.
Í upphafi seinni hálfleiksins hófust heimakonur svo um leið að bæta við forystuna. Leiða mest með 17 stigum í leikhlutanum, sem endar 55-45. Í lokaleikhlutanum gera gestirnir úr Garðabæ svo vel í að koma til baka. Hægt en örugglega vinna þær niður muninn og komast svo loks tveimur stigum yfir þegar aðeins 3 mínútur eru eftir. Stjarnan fór hinsvegar verulega illa að ráði sínu á lokamínútunum. Taka þrjár sóknir í röð sem þær kasta boltanum frá sér. Skallagrímskonur létu ekki segja sér það tvisvar. Með góðum körfum frá Shequila Joseph og risastórum vítum frá Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur, tryggja þær sér nokkuð þægilegan fjögurra stiga sigur að lokum, 67-63.
Atkvæðamest í nokkuð jöfnu liði Skallagríms var áðurnefnd Shequila Joseph, á tæpum 38 mínútum spiluðum skoraði hún 14 stig, tók 12 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Fyrir gestina var leikstjórnandinn Danielle Rodriguez drjúg, skoraði 13 stig, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.
Skallagrímur-Stjarnan 67-63
Gangur leiks: (18-15, 20-16, 17-14, 12-18)
Skallagrímur: Ines Kerin 18/5 stoðsendingar, Maja Michalska 16/4 fráköst, Shequila Joseph 14/12 fráköst, Brianna Banks 11/5 stoðsendingar, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 7/5 fráköst, Guðrún Ósk Ámundadóttir 1, Arna Hrönn Ámundadóttir 0, Karen Dögg Vilhjálmsdóttir 0, Árnína Lena Rúnarsdóttir 0, Þórunn Birta Þórðardóttir 0.
Stjarnan: Ragna Margrét Brynjarsdóttir 17/9 fráköst, Danielle Victoria Rodriguez 13/7 fráköst/9 stoðsendingar, Bríet Sif Hinriksdóttir 9/7 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 8/9 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 8/5 fráköst, Veronika Dzhikova 5/6 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 3, Aldís Erna Pálsdóttir 0, Alexandra Eva Sverrisdóttir 0, Sólrún Sæmundsdóttir 0.