spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaUmfjöllun: Níundi sigurleikur Þórs í röð

Umfjöllun: Níundi sigurleikur Þórs í röð

Þór vann 35 stiga sigur á botnliði Snæfells og er þetta níundi sigurleikur Þórs í röð í deildinni.

Fyrirfram mátti búast við því að róðurinn yrði þungur hjá botnliðinu gegn Þór sem trónir á toppi deildarinnar enda kom á daginn að Þór hafði 35 stiga sigur 97-62. Í raun þarf ekki að fara mörgum orðum um leikinn sem slíkan því leikurinn varð aldrei sú skemmtun sem menn vonuðust eftir. Miðað við þann getumun sem á liðunum er bjuggust margir við að munurinn yrði meiri þegar upp var staðið.

Það var aðeins í fyrsta leikhluta sem gestirnir náðu að halda eitthvað í við Þór og án þess að taka eitt eða neitt af gestunum þá voru það heimamenn sem buðu í raun uppá þá litlu spennu sem þá var með afar tilþrifalitlum leik. Þór vann leikhlutann með þrem stigum 17-14.

Það sem eftir lifði leiks jók Þór jafnt og þétt við forskotið og staðan í hálfleik var 45-32. Í þriðja leikhluta bætti Þór 15 stigum í forskotið og á lokakaflanum komu 7 stig til viðbótar og þegar upp var staðið var munurinn á liðunum 35 stig 97-62.

Lárus notaði tækifærið í kvöld og gaf mörgum leikmönnum úr drengjaflokki tækifæri alls 6 leikmenn af 12 sem komu við sögu í leiknum fyrir Þór. Í þeim hópi var Birgir Ingi Einarsson leikmaður fæddur 2001 sem kom inn á í sínum fyrsta meistaraflokksleik og spilaði 5:28 mínútur.

Stig Þórs; Pálmi Geir 20 og 7 fráköst, Damir Mijic 19 og 9 fráköst, Júlíus Orri 14 stig og 5 fráköst, Larry Thomas 12 stig 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Gunnar Auðunn og Ingvi Rafn 9 stig hvor, Sigurður Traustason 6 stig, Bjarni Rúnar og Kolbeinn Fannar 3 stig hvor, Róbert Orri 2. Arnar Þór Stefánsson og Birgir Ingi náðu ekki að skora í kvöld.

Hjá Snæfelli var Dominykas Zupkauskas stigahæstur með 14 stig 6 fráköst og 5 stoðsendingar, gamla brýnir Darell Flake 9 stig og 6 fráköst, Aron Ingi 8 stig, Ellert Þór, Viktor Brimir og Tómas Helgi 6 stig hver, Dawid Einar 5 stig, Ísak Örn 4 og þeir Benjamín Ómar og Rúnar Þór 2 stig hvor.

Tölfræði leiks 

Eftir leik kvöldsins er Þór með 24 stig á toppi deildarinnar en Höttur og Fjölnir koma í 2. og 3. sæti deildarinnar með 18 stig en Höttur á leik til góða á Þór og Fjölni.

Staðan í deildinni

Myndasafn (Palli Jóh)

 

Viðtal við fyrirliðann Pálma Geir Jónsson:

Viðtal við Gunnar Auðunn Jónsson:

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -