Íslandsmeistarar KR lögðu leið sína í Þorlákshöfn til Þórsara fyrir sjónvarpsleik kvöldsins. Þórsarar unnum frábæran sigur á liði Tindastóls í síðasta leik og sama má segja um sigur KR á Keflavík í þeirri sömu umferð.
Til þess að gera langa sögu stutta þá þarf lítið að segja um fyrsta leikhluta. Liðin skoruðu bæði 18 stig á fyrstu 10 mínútunum og allt með eðlilegasta móti. Í raun var annar leikhluti ekki merkilegur nema fyrir þær sakir að KR skoraði þá 17 stigum meira en heimamenn og staðan orðin 37-54 gestunum í vil þegar gengið var til klefa í hálfleik.
KR stúkan skemmti sér konunglega í þriðja leikhluta (undirrituð getur vottað það). Þrátt fyrir að Þórsarar hefðu ákveðið að mæta aftur til leiks eftir andlega fjarveru í öðrum leikhluta þá jók KR enn muninn og sigraði þriðja leikhluta 25-27. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 62-81 og ekki hríslaðist um gestina sem leiddu mest með 23 stigum um miðjan þriðja leikhluta.
Já þarna sátum við sæl og glöð, 19 stigum yfir og varla hætt að manna gólfið með reynslumeiri leikmönnum en KR gerði. Hvað gat farið úrskeiðis hjá fimmföldum Íslandsmeisturunum? Allt, svarið er allt. Hvar eigum við að byrja? Það væri fáfræði að halda að Þórsarar myndu leggjast niður og gefast upp en að stigaskorið myndi sveiflast um 30 stig var vægast sagt óvænt. Þórsarar mættu brjálaðir til leiks og KR liðið kom greinilega ekki með drápseðlið með sér. Á dauða mínum átti ég von en að sitja á fremsta bekk KR megin í stúkunni og sjá félagið mitt tekið af lífi í beinni – það var vægast sagt óvænn endir á þessum fimmtudegi.
Byrjunarlið
Þór: Kinu Rochford, Nikolas Tomsick, Jaka Brodnik, Halldór Garðar Hermannsson og Ragnar Örn Bragason
KR: Kristófer Acox, Jón Arnór Stefánsson, Pavel Ermolinskij, Julian Boyd og Mike Di Nunno
Þáttaskil
Allt stefndi í að þáttaskil leiksins væru 2. leikhlutinn sem KR sigraði með 17 stigum en svo fór heldur betur ekki. Hin sönnu þáttaskil urðu í fjórða leikhlutanum þegar KR liðið hrundi eins og illa byggð spilaborg á meðan Þórsarar léku á alls oddi. Það má alltaf ræða einn dóm hér eða þar sem fellur með öðru liðinu á ögurstundu. Í þessum leik væri það helst mjög umdeild óíþróttamannsleg villa sem var dæmd á Kristófer Acox þegar 4 mínútur voru eftir af leiknum. Hvort þessi dómur réði úrslitum er efni í miklar rökræður sem undirrituð ætlar ekki að fara út í hér. Þegar uppi er staðið þá geta jafnvel okkar eftirlætis dómarar varla snúið leikjum eins og gerðist í kvöld, að minnsta kost ekki án smá aðstoðar frá leikmönnunum á vellinum.
Tölfræðin lýgur ekki
Undirrituð játar sig sigraða þegar kemur að vali á einhverjum áberandi tölfræðiþætti. KR skoruðu tvöfalt fleiri þrista og Þórsarar fóru nær þrisvar sinnum oftar á vítalínuna. Annað liðið gerði aðeins betur í einu og hitt liðið í einhverju öðru svona eins og gengur og gerist í körfuboltaleik. Ef til vill mætti tilnefna stigaskorið í fjórða leikhlutanum sem undarlegasta tölfræðiþátt kvöldsins.
Hetjan
Nefna mætti Kinu fyrir að vera stiga- og framlagshæstur eða jafnvel fyrir það eitt að setja boltann alltaf í spjaldið í vítunum. Halldór Garðar sem var með 1 stig lengst framan af en endaði leikinn með 14 stig og dró sína menn með sér gæti sömuleiðis gert tilkall hér.
Kjarninn
Þórshjartað virðist margan risann geta lagt ef liðsmenn taka sig saman og gefa allt í slaginn. Það var greinilegt í kvöld. Kalt mat: KR voru betra liðið í um 30 mínútur en úrslit kvöldsins eru bláköld sönnun þess að þetta er sannarlega 40 mínútna leikur.
Elín Lára