Topplið KR sigraði í kvöld lið Íslandsmeistara Hauka með 80 stigum gegn 70 í 15. umferð Dominos deildar kvenna. Eftir leikinn er KR sem áður í toppsæti deildarinnar meðð 22 stig, tveimur stigum á undan Keflavík og Snæfell sem deila 2.-3. sætinu. Haukar eru hinsvegar með 8 stig og deila áfram í 6.-7. sætinu með Skallagrím.
Það voru gestirnir úr Vesturbænum sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhlutann, 22-9. Heimastúlkur í Haukum vakna þá aðeins til lífsins undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er KR þó enn með 7 stiga forystu, 37-30.
Í upphafi seinni hálfleiksins reyndu Haukar hvað þær gátu til þess að vinna niður forystu KR. Tapa leikhlutanum þó með tveimur stigum og eru því níu undir fyrir lokaleikhlutann, 62-53. Í honum gerði KR svo það sem þurfti til þess að sigla lokum öruggum 10 stiga sigri í höfn, 80-70.
Kiana Johnson var atkvæðamest í lið KR í kvöld, skoraði 35 stig, tók 16 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 4 boltum á rúmum 37 mínútum spiluðum. Fyrir Hauka var það LeLe Hardy sem dróg vagninn með 30 stigum og 18 fráköstum.
Haukar-KR 70-80
(9-22, 21-15, 23-25, 17-18)
Haukar: LeLe Hardy 30/18 fráköst/7 stolnir, Klaziena Guijt 14/4 fráköst/5 stoðsendingar, Þóra Kristín Jónsdóttir 14/4 fráköst/5 stoðsendingar, Magdalena Gísladóttir 6, Sigrún Björg Ólafsdóttir 3, Rósa Björk Pétursdóttir 2/4 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 1, Kolbrún Eir Þorláksdóttir 0, Karen Lilja Owolabi 0, Bríet Lilja Sigurðardóttir 0, Stefanía Ósk Ólafsdóttir 0.
KR: Kiana Johnson 35/16 fráköst/5 stoðsendingar, Orla O’Reilly 26/6 fráköst/6 stoðsendingar, Vilma Kesanen 8, Unnur Tara Jónsdóttir 6, Perla Jóhannsdóttir 5, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Ástrós Lena Ægisdóttir 0, Þóra Birna Ingvarsdóttir 0, Eygló Kristín Óskarsdóttir 0, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 0.