KR og Keflavík mættust í toppslag í Vesturbænum síðastliðin laugardag. Fyrirfram var búist við hörkuleik enda voru bæðin liðin i harðri toppbáráttu ásamt liði Snæfells.
Leikurinn fór heldur rólega af stað en gestirnir úr Keflavík voru þó stekari en heimakonur til að byrja með. Smám saman hrukku KR stelpur í gang og leiddu 23:16 eftir fyrsta leikhluta. Meira jafnræði var í öðrum leikhluta. Liðin skiptust á körfum og stefndi allt í spennandi leik. Staðan í hálfleik var 41:36 fyrir heimakonum. Segja má að þriðji leikhluti hafi gert útaf við gestina. KR-ingar komu mjög ákveðnar til leiks og lögðu grunninn að sigrinum. Þær spiluðu oft flottan körfubolta og undir lok leikhlutans voru þær 19 stigum yfir. Svipaða sögu má segja um fjórða leikhluta og endaði á að KR sigraði með 93 stigi gegn 71. Helsti munurinn á liðunum var sá að KR stúlkur virtust vilja vinna þennan leik en hálfgert kæruleysi einkenndi leik gestanna og eftir því sem leið á og varð þessi vilji til þess að KR sigraði.
Lið Keflavíkur sýndi allt aðrar hliðar á sér í leiknum en þær hafa verið að gera í vetur. Vörnin var ekki alveg að gera sig en mest munaði þó um að þær töpuðu 22 boltum. Það er fullmikið og gaf KR-ingum tækifæri á að komast í auðveld skot sem skilaði fjölda stiga. Gera má fastlega ráð fyrir að Keflavíkur stúlkur mæti mun sterkari til leiks næst enda flott lið sem spilaði langt undir getu í þessum leik.
Hjá heimakonum var hin írska Orla hvað öflugust. Það er magnað að svona góður leikmaður sé í raun írsk en hún heldur áfram að sýna hve mergjaðir Írar (sem verða seint þekktir fyrir að vera mikil körfuboltaþjóð) geta í raun verið í körfubolta. Aðrir leikmenn liðsins stóðu sig með stakri prýði og gaman er að sjá hve vel erlendu leikmennirnir passa inn í hópinn með þeim íslensku.
Stigahæst í liði Keflavíkur var Birna Valgerður með 19 stig og því næst Brittanny með 17 stig og 11 fráköst. Hjá KR stúlkum var það Orla sem leiddi stigaskorið með 32 stig en Kiana fylgdi með 27 stig.
Næsti leikur beggja liða er þann 9. janúar. Þá mæta KR-ingar Haukum en Haukar gerðu vel og unnu Skallagrím í hörkuleik í gærkvöldi. Keflavík mætir hins vegar Stjörnunni en þær unnu Breiðablik í leik sínum á laugardaginn.
Umfjöllun / Salvör Ísberg