spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaMatthías: Rosalega mikilvægar vikur framundan

Matthías: Rosalega mikilvægar vikur framundan

Matti Sig er kominn í búning sem hljóta að vera góðar fréttir fyrir ÍR. Karfan ræddi við Matta eftir tapið gegn Stjörnunni. 

Þú ert kominn í búning, spilaðir þó ekkert! Þú ert ekki alveg tilbúinn?

Nei…það er ennþá smá í mig. En það er komið smá ljós í þetta og maður er orðinn aðeins jákvæðari. Ég er byrjaður að hreyfa mig með strákunum á æfingum, spila aðeins og hvíla svo og þannig. Við erum að reyna að feta aðeins þá línu að vera skynsamir og láta reyna á þetta. Þetta lítur a.m.k. mun betur út núna en fyrir mánuði síðan.

Það er náttúrlega góðar fréttir fyrir liðið…

Já…vonandi!

Þið skiptuð svo Justin Martin út og fenguð Kevin Capers í staðinn. Hvernig líst þér og ykkur á það?

Bara vel. Það var mikil óvissa með það hvenær ég myndi koma til baka þegar við vorum í þessum hugleiðingum. Við vildum fá einhvern mann sem gat borið upp boltann með Hákoni og sprengt leikinn aðeins upp. Ég held að hann hafi sýnt það í dag að hann getur auðveldlega gert það. Hann lenti nú fyrir einhverjum 8 klukkustundum síðan! Ég sat með honum á bekknum hérna 2 mínútum fyrir tip-off og var að reyna að kenna honum einhver kerfi! En ég held að hann verði flottur, þetta er bara góður gæi heyrist mér, gott að tala við hann og hann virðist vera mjög áhugasamur. Mér finnst hann líka vera með leiðtogahæfileika í sér sem er mikilvægt fyrir atvinnumann. Við erum spenntir fyrir honum og framhaldinu. Við erum að fara í rosalega törn núna af leikjum sem við þurfum og ætlum að vinna.

Ég veit ekki hvort það sé þörf á að ræða þennan leik í kvöld eitthvað mikið – það er kannski ekkert skrýtið að tapa gegn svona sterku liði eins og Stjörnunni þar sem þú ert ekki með og Kaninn búinn að vera á landinu í örfáa tíma! Þið viljið væntanlega horfa bara fram á veginn og liðið er nú kannski loksins að verða tilbúið?

Jájá, við vonum það að þetta séu svona seinustu breytingar og að þetta sé liðið sem við viljum vinna með. Það er kannski rétt að það er ekki af mjög miklu að taka úr þessum leik – það var ágætis barátta í okkur í einhverja þrjá leikhluta en svo fór þetta hratt. En þetta er rosalega mikilvægar vikur framundan, ég og Kevin erum að koma inn – við erum gæjar sem erum mikið með boltann og erum mikið að búa til og höfum okkar hugmyndir um hvað eigi að gera. Það er mikilvægt að samskiptin verði góð á þessum tíma og að við finnum einhverja leið til að liðið blómstri frekar en einstakir leikmenn.

Meira má lesa um leikinn hér.

Viðtöl: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -