spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaRozzell rosalegur í öruggum Stjörnusigri

Rozzell rosalegur í öruggum Stjörnusigri

ÍR-ingar fengu Garðbæinga í heimsókn í fyrsta leik ársins 2019 í kvöld. Stjörnumenn enduðu árið 2018 á ágætum spretti og hafa sigrað síðustu þrjá leiki í deildinni. Heimamenn hafa hins vegar átt við ramman reip að draga í vetur og hafa tapað fjórum leikjum í röð. Vonandi er bjartari tíð framundan fyrir ÍR-inga með nýjum erlendum leikmanni og betri heilsu ýmissa leikmanna. Stjörnumenn koma að vísu líka inn í nýja árið með nýjum bandarískum leikmanni sem undirritaður skilur ekki…ekki ennþá a.m.k.

 

Spádómskúlan: Ég benti kúlunni á að óljóst væri hvort eftirmaður Justin Martin myndi spila leikinn og einnig hafa ekki borist fréttir af ástandi Matta. Hún svaraði með þjósti og sagði að Stjarnan myndi vinna þennan leik þó Klassi og Eiki Ö. myndu báðir draga fram skóna! Lokatölur 77-95.

 

Byrjunarlið:

ÍR: Robinson, Fissi Kalli, Hákon, Siggi, Sæsi

Stjarnan: Antti, Ægir, Hlynur, Tommi, Rozzell

 

Gangur leiksins

Matti var í búningi í kvöld sem ætti að gleðja ÍR-inga þó svo að hann hafi ekkert spilað í leiknum. Einnig var Kevin Capers mættur á klakann en byrjaði á bekknum. Heimamenn byrjuðu leikinn í svæðisvörn en Antti fagnaði því með þristi í fyrsta skoti leiksins og Tommi bætti öðrum við í næstu sókn. Gestirnir voru skrefinu á undan en Fissi Kalli og Sæsi sáu til þess að þeir myndu ekki vaða yfir ÍR-inga í Hellinum. Eftir fyrsta leikhlutann leiddu Stjörnumenn 24-30.

 

Gestirnir hótuðu ítrekað að skilja heimamenn eftir og Brandon Rozzell virtist ekki geta klúðrað skoti. ÍR-ingar áttu í basli með að komast að körfunni eða búa til góð skot en baráttan var til fyrirmyndar og hleyptu gestunum aldrei yfir hinn sálfræðilega 10 stiga múr. Í hálfleik var munurinn aðeins 4 stig, 49-53, en hefði hæglega getað verið meiri. 18 leikmenn voru komnir á blað í hálfleik sem er býsna gott og aðeins einn með yfir 10 stig. Sá leikmaður heitir Brandon Rozzell og var fljótur að fá mig til að skilja breytingarnar á Stjörnuliðinu!

 

Um miðjan þriðja leikhluta voru heimamenn enn aðeins hænufeti á eftir gestunum í stöðunni 61-63. Borche ákvað þá að fara aftur í svæðisvörn sem var frekar undarleg ákvörðun enda Stjarnan með afar árangursríkt móteitur gegn slíkum brögðum og Antti setti umsvifalaust þrist. Rozzell bætti svo öðrum við í kjölfarið og þarna skildu í raun leiðir. Skömmu síðar var Robinson rekinn í sturtu, gestirnir 70-79 undir að leikhlutanum loknum og útlitið fremur svart fyrir ÍR.

 

Rozzell hafði frekar hægt um sig í þriðja leikhluta en snögghitnaði aftur í þeim fjórða. Hann gerði algerlega út um leikinn með þremur þristum í röð og þegar 5 mínútur voru eftir var staðan 74-91. Úrslitin voru þarna ráðin að mati undirritaðs og Borche var sammála og henti strax guttum inn á völlinn af bekknum. Ruslamínúturnar urðu kannski aðeins of margar og óhætt að segja að síðari hálfleikur var ekkert sérstaklega skemmtilegur. Stjörnumönnum er sennilega að mestu sama og hirtu stigin tvö örugglega, lokatölur urðu 83-106.

 

Maður leiksins

Brandon Rozzell er kannski púlsið sem hefur vantað í Stjörnuliðið. Hann var í það minnsta án nokkurs vafa maður þessa leiks. Hann skoraði 37 stig, setti 9 þrista í 14 skotum, tók 3 fráköst, stal 3 boltum og gaf 4 stoðsendingar. Það er tæplega hægt að biðja um meira.

 

Kjarninn

ÍR-liðið er hreinlega ekki tilbúið og það fer að verða of seint að púsla saman í lið enda deildin hálfnuð. En það er sennilega eitthvað að birta til í Hellinum, Matti er á leiðinni og nýi Kaninn, Kevin Capers lítur ágætlega út við fyrstu sýn.

 

Það hefur verið talað um að eitthvað vanti hjá Stjörnuliðinu og kannski er það Brandon Rozzell. Hann var í það minnsta góður í þessum leik og Stjarnan er á góðu flugi. Það eru mörg spennandi og skemmtileg lið í deildinni í ár og Stjarnan er klárlega eitt þeirra.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtöl / Kári Viðarsson

Myndir / Þorsteinn Eyþórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -