ÍR og Njarðvík mættust í dag í Hertz-hellinum í 1. deild kvenna. Liðunum hafði verið spáð ofarlega í deildinni í ár og því var von á góðum leik. Varnarleikur beggja liða skilaði sér í lágu stigaskori og heimastúlkur unnu að lokum 55-46.
Fyrir leik
Í seinasta leik hafði ÍR farið nokkuð illa með Grindavík, sem hafði verið spáð efsta sætið af sumum. Njarðvík hafði unnið Fjölnir b sem var spáð mjög neðarlega. Bæði lið gátu tekið sæti efst í deildinni með sigri í þessum leik.
Gangur leiksins
ÍR og Njarðvík voru bæði höktandi til að byrja með en Njarðvíkingar náðu vopnum sínum fyrr og höfðu náð 2-10 forystu eftir 7 mínútur. Þá tóku ÍR-ingar við sér og fóru að minnka muninn. Kristrún Sigurjónsdóttir, reyndasti leikmaður ÍR, tók sig þá til í öðrum leikhlutanum og skoraði nokkrar mikilvægar körfur til að brúa bilið og koma ÍR fram úr Njarðvík í stigaskori.
Njarðvíkingar voru fastir fyrir og gerðu sóknirnar erfiðar fyrir ÍR-inga. Í hálfleik var staðan hnífjöfn, 25-25. Spil beggja liða var á löngum köflum tilviljanakenndur sem skýrðist af því að varnir beggja liða voru að ýta hvert öðru úr þægingarammanum. Lið Njarðvíkinga þurfti sem dæmi oftar en ekki að taka neyðarskot þegar lítið var eftir á skotklukkunni.
Í þriðja leikhluta náðu ÍR-ingar að slíta sig frá gestunum úr Njarðvík með aðeins yfirvegaðara spili og gátu teygt á muninum.
Njarðvík setti upp í pressu í fjórða leikhluta og náðu aldeilis að fipa Breiðholtsliðið, sem tók hvert fljótfærnisskot á fætur öðru og tapaði öðrum hverjum bolta í illa ígrunduðum sendingum. ÍR var hægt og rólega að missa forystuna og áttu í mestu erfiðleikum með að stöðva áhlaup Njarðvíkinga.
Kristrún kom þá aftur með reynsluna inn í spil ÍR-inga um miðbik leikhlutans og náði að stemma stigu við blæðingunni með smá yfirvegun. Úr stöðunni 44-41 komu þau stöðunni upp í 53-44. Njarðvík gekk ekkert að setja þristana sína og urðu að lokum að sætta sig við níu stiga ósigur, 55-46.
Vendipunkturinn
Eins og áður sagði náðu Njarðvík að hraða spilinu í lokaleikhlutanum með pressuvörn. ÍR-ingar misstu yfirvegunina þangað til að Kristrún Sigurjónsdóttir kom aftur inn á og náði að hægja á leiknum með því að ganga með boltann upp eða setja upp leikkerfi eftir að pressan hafði verið brotin.
Yfirvegun margfalds Íslands- og bikarmeistara á borð við Kristrúnu var það sem vann leikinn í fjórða leikhluta og skilaði ÍR-ingum sigrinum.
Lykilleikmaðurinn
Kristrún Sigurjónsdóttir var drjúg fyrir ÍR í dag. Hún skoraði 16 stig, tók átta fráköst og skilaði 15 framlagspunktum í leiknum. Þar að auki vann liðið hennar með 18 stigum meðan hún var inn á. Þetta afrekaði hún komandi af varamannabekknum, en Kristrún byrjaði ekki inn á í leiknum. Anika Lind Hjálmarsdóttir var líka góð fyrir ÍR með 10 stig og 12 fráköst.
Í liði Njarðvíkur var Helena Rafnsdóttir framlagshæst með 19 stig og fimm fráköst. Hún stal líka þremur boltum fyrir Njarðvíkinga.
Tölfræðin sem skildi á milli
Njarðvíkingar hittu á ömurlegan skotleik í dag. Þær gátu ekki hitt utan af velli (26% skotnýting) og það sem meira er, þær gátu ekki nýtt þau fjölmörgu vítaskot sem að þær fengu (8/21 í vítum, 38% vítanýting).
Þetta varð til þess að ÍR-ingar rifu niður 65 fráköst í leiknum gegn aðeins 37 hjá gestunum. Þrátt fyrir að ÍR hafi tapað 21 boltum í leiknum kom það ekki að sök vegna lélegrar skotnýtingar Njarðvíkurstúlkna.
Kjarninn
Þá hefur ÍR sýnt spámönnum í tvo heimana, allavega í fyrstu umferðum 1. deildar kvenna. Þeim var spáð á eftir Grindavík og Njarðvík en ÍR-stelpur hafa sýnt að þær eru liðið sem önnur lið verða að passa sig á. Breiðhyltingar eiga enn eitthvað í land en ef að þær halda áfram að bæta sig þá lítur út fyrir að þær séu líklegar til að tróna á toppnum í deildinni.
Njarðvíkurstúlkur voru óheppnar með skotin í leik dagsins en geta huggað sig við það að þær eiga augljóslega mikið inni. Þær verða bara að sýna það í næstu leikjum.
Viðtöl eftir leik:
Kristrún: “Frábært að vera komin á gamla staðinn.”
Ísak Wíum: “Þetta er skemmtileg blanda af leikmönnum.”
Rúnar Ingi: “Við föllum á prófinu.”
Umfjöllun og viðtöl: Helgi Hrafn Ólafsson