spot_img
HomeFréttirMeistari meistaranna: Skallagrímur vann Valsstúlkur

Meistari meistaranna: Skallagrímur vann Valsstúlkur

Meistarakeppni kvenna fór fram í kvöld fyrir luktum dyrum. Deildarmeistararnir í Val heimsóttu bikarmeistarana í Skallagrím í Borgarnesi. Eftir sveiflukenndan leik unnu Skallagrímskonur að lokum 74-68.

Fyrir leik

Valur saknaði nokkurra leikmanna fyrir leik kvöldsins. Helena Sverrisdóttir er enn í barneignaleyfi og Hallveig Jónsdóttir var enn að klára sóttkví. Þar að auki vantaði bandarískan leikmann en lítið hefur spurst um þann leikmann hjá Valsstúlkum. Skallagrímur virtist hafa alla leikmenn tilbúnar.

Gangur leiksins

Eins og vill oft verða í fyrstu leikjum vetursins var eilítill haustbragur á báðum liðunum framan af í leiknum. Liðin skoruðu lítið fyrstu mínúturnar og voru lengi í gang, enda var staðan 2-2 eftir næstum þrjár mínútur.

Valsstúlkur virtust dálítið seinar á fótunum í fyrsta leikhluta en náðu upp hraðanum eftir því sem á leið í leikhlutanum. Þær rauðklæddu voru duglegar að dreifa stigaskorinu og eftir fimm mínútur voru allar í byrjunarliðinu komnar á blað. Keira Robinson var heldur kræfari hjá Skallagrím og skoraði 10 af 14 stigum heimaliðsins fyrstu tíu mínúturnar. Valur leiddi með þremur stigum við upphaf annars leikhlutans, 14-17.

Gestirnir frá Hlíðarenda leiddu fram að hálfleik en Skallagrímur var aldrei langt undan. Þriggja stiga nýting Vals var afleit og liðið gat aðeins sett tvo þrista í þrettán tilraunum (15% nýting). Skallagrímskonur voru lítið skárri, en héldu sér nærri gestunum með vítaskotum og hraðaupphlaupum. Staðan í fyrri hálfleik var 31-32 fyrir Val.

Aðeins annað liðið mætti fyrstu 5 mínúturnar eftir hálfleikshléið og það var Skallagrímur. Þær hlóðu í 14-0 áhlaup á rúmri mínútu áður en þjálfari Vals, Ólafur Jónas, tók leikhlé. Það hafði ekki tilætluð áhrif og Valur skoraði ekki fyrr en eftir aðra rúma mínútu. Staðan var þá orðin 45-34 fyrir Skallagrím sem voru ekki hættar. Heimaliðið vann fyrstu fimm mínútur þriðja leikhluta 21-7 og virtust í ágætri stöðu: 52-39.

Valur tók sitt eigið áhlaup eftir það og unnu næstu fjórar mínúturnar 14-1. Þar kom Eydís Eva Þórisdóttir, nýkomin til liðsins frá Keflavík, sterk inn með góðri vörn og 8 stigum. Á lokamínútunni hrukku Skallagrímskonur aðeins í gang og lokuðu leikhlutanum með tveimur góðum körfum. Staðan 58-53 fyrir Skallagrím.

Skallagrímur tók völdin aftur í lokaleikhlutanum og Valur komst aldrei nær en fimm stig það sem eftir lifði leiks. Skallagrímur vann að lokum með sex stigum, 74-68. Þær eru því Meistarar meistaranna árið 2020.

Bestar í kvöld

Keira Robinson leiddi liðið sitt í flestum tölfræðiþáttum, ekki ósvipað og hún gerði í fyrra hjá þeim. Hún skoraði 21 stig, gaf fimm stoðsendingar, stal fjórum boltum og lauk leik með 22 framlagspunkta. Nikita Telesford, nýr miðherji liðsins, nældi sér í tvöfalda tvennu með tólf stigum og tíu fráköstum. Sanja Orazovic var sömuleiðis ágæt með 16 stig og 8 sóttar villur.

Hjá Valsstúlkum var Hildur Björg Kjartansdóttir stigahæst með 22 stig og Guðbjörg Sverrisdóttir framlagshæst með 20 framlagspunkta (16 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 varin skot). Dagbjörg Dögg Karlsdóttir var hársbreidd frá því að ná tvöfaldri tvennu með 10 stig og 9 stoðsendingar.

Vendipunkturinn

Það má segja að það hafi verið tveir vendipunktar í leiknum, fyrst í upphafi þriðja leikhluta og síðan aftur við lok þriðja og upphaf fjórða leikhlutans. Skallagrímur náði ágætri forystu í byrjun seinni hálfleiks sem Valsstúlkur söxuðu niður rétt fyrir lok þriðja leikhlutans. Þá þá tók heimaliðið annað svipað áhlaup við lok þriðja og í byrjun lokaleikhlutans sem Valur gat ekki unnið niður.

Tölfræðin sem skildi að

Bæði lið hittu álíka vel utan af velli í leiknum og tóku jafn mörg skot þar. Skallagrímur hitti meira að segja verr þar. Þær gulklæddu drógu aftur á móti miklu fleiri vítaskot í leiknum, 28 gegn aðeins 12 hjá Val. Þar var munurinn á liðunum; Skallagrímur fengu 12 fleiri stig frá vítalínunni.

Kjarninn

Skallagrímur var með fullskipað lið og virtust ágætlega spilandi. Þær voru aftur á móti í villuvandræðum á köflum í leiknum og reiddu sig kannski heldur mikið á Robinson. Góður sigur á Valsstúlkum.

Valur var mögulega sama um þennan leik, en þær misstu leikinn ekki einu sinni heldur tvisvar frá sér. Þær sakna nokkurra leikmanna en verða að geta haldið haus í leikjum sem þessum.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -