Haukar lögðu topplið Keflavíkur í Ólafssal í kvöld í 16. umferð Subway deildar karla, 83-67. Eftir leikinn er Keflavík enn í efsta sæti deildarinnar með 24 stig, en bæði Njarðvík og Valur geta farið uppfyrir þá með því að sigra leiki sína á morgun. Haukar eru sem áður í 4. sæti deildarinnar með 22 stig.
Leikurinn var nokkuð jafn og spennandi í upphafi. Jafnt hjá liðunum eftir fyrsta leikhluta, 15-15. Með góðum öðrum leikhluta ná Haukar að skapa sér smá forystu, en þegar að liðin ganga til búningsherbergja í hálfleik eru þeir 11 stigum yfir, 44-33.
Keflavík nær að hanga í heimamönnum í upphafi seinni hálfleiksins, en staðan fyrir lokaleikhlutann er 61-53 Haukum í vil. Heimamenn gera svo gríðarlega vel í fjórða leikhlutanum að hleypa Keflavík aldrei inn í leikinn og sigra að lokum með 16 stigum, 83-67.
Bestur í liði Hauka í kvöld var Daniel Mortensen með 20 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar. Honum næstur var Norbertas Giga með 21 stig og 9 fráköst.
Atkvæðamestur í liði Keflavíkur í leiknum var David Okeke með 18 stig, 11 fráköst og Dominykas Milka bætti við 17 stigum og 11 fráköstum.
Haukar eiga leik næst komandi fimmtudag 16. febrúar gegn ÍR í Skógarseli á meðan að Keflavík tekur á móti Þór degi seinna, föstudag 17. febrúar.