Austin Magnús Bracey hefur samið við Hauka um að leika með liðinu á komandi tímabili í Dominos deild karla. Staðfesti leikmaðurinn þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.
Austin kemur til liðsins frá Val, þar sem hann hefur verið síðustu fjögur tímabil. Í 20 leikjum í Dominos deildinni í fyrra skilaði hann 12 stigum, 2 fráköstum og 2 stoðsendingum á 26 mínútum spiluðum að meðaltali í leik.
Í samtali við Körfuna sagðist Austin hafa kosið að semja við Hauka vegna stöðugleika félagsins í Dominos deildinni á síðustu árum og þess sterka kjarna leikmanna sem félagið hafi, en einnig hafi honum langað að spila fyrir þjálfarann Israel Martin, sem hann beri mikla virðingu fyrir.
Varðandi hlutverk sitt á komandi tímabili hjá Haukum sagðist Austin vilja spila vel á báðum endum vallarins og setja niður skotin sín. Varðandi möguleika félagsins á komandi tímabili sagði hann:
“Ég tel Hauka eiga góða möguleika á komandi tímabili. Þar eru margir góðir leikmenn sem leggja í púkkið og ef að við náum að mynda sterka liðsheild, þá getum við keppt við hvaða lið sem er”
Tímabil Hauka í Dominos deildinni fer af stað þann 1. október gegn Þór í Þorlákshöfn.