Stjarnan tók á móti Tindastól í fyrri sjónvarpsleiknum í kvöld í sextándu umferð Subway deildar karla. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið, enda gat Stjarnan slitið sig nokkuð vel frá botnliðunum með sigri og Tindastóll vildi ná öðrum sigri fyrir nýjan þjálfara sinn og til að halda í við hin toppliðin í baráttunni um besta sætið í stöðutöflunni.
Leikurinn var mjög sveiflukenndur, en þó spennandi, og lauk með sigri heimamanna; 79-68.
Fyrir leik
Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, var aftur í stuttbuxum en þó ekki á leikskýrslu eins og sumir spekúlantar höfðu kastað fram þegar Pavel fékk félagaskipti yfir í Tindastól áður en félagaskiptaglugginn lokaði. Hins vegar var Davis Geks, nýr lettneskur leikmaður Tindastóls, kominn og reiðubúinn að spila.
Hjá Stjörnunni vantaði Hlyn Bæringsson og Tómas Þórð Hilmarsson en þeir eru báðir úti vegna meiðsla. Armani Moore, nýr bandarískur leikmaður Stjörnunnar, var loksins kominn með leikheimild eftir að hafa setið á bekknum og horft á nokkra leiki án þess að mega spila.
Gangur leiksins
Strax frá fyrstu mínútu var þjálfari Stjörnunnar að hrista haus og pirra sig á ákvörðunum dómarana þriggja. Armani Moore byrjaði leikinn sterkt og ljóst var að hann klæjaði að fá að spila fyrir liðið sitt. Stólarnir virtust beittir og reiðubúnir í leikinn, enda tóku þeir fljótlega forystuna í leiknum. Nýr leikmaður Tindastóls, Davis Geks, átti góða innkomu í sínum fyrsta leik og vakti kæti stuðningsmanna liðsins strax frá fyrstu körfu hans. Stjarnan herti sig eftir brösuga byrjun og voru aðeins einu stigi á eftir Tindastóli í lok fyrsta leikhluta, 16-17.
Í öðrum leikhluta var útlit fyrir að Stjarnan ætlaði að ná tökum á leiknum strax á fyrstu mínútunni. Drungilas nældi sér í aðra villu sína í sókn og Dagur Kár tók í næstu sókn heimaliðsins forystuna með tveimur vítaskotum. Þá tóku Stólarnir sig til og tóku 9-0 áhlaup sem neyddi Arnar Guðjóns, þjálfara Stjörnunnar, til að taka leikhlé. Pavel Ermolinskij sá ástæðu til að ræða líka við dómarana enda var mikið ósamræmi í fyrri hálfleik á villufjölda liðanna. Þegar 14 mínútur voru liðnar af leiknum höfðu Stjörnumenn fengið eina villu gegn 8 hjá Tindastóli.
Áfram hélt Stjarnan að hjakka niður muninn og skyndilega var munurinn kominn niður í 3 stig með rúmar þrjár mínútur eftir til hálfleiks. Pavel tók þá leikhlé og ræddi aðeins við sína menn. Það skilaði sér aldeilis og gestirnir tóku 13-1 áhlaup til að loka fyrri hálfleiknum. Staðan því 33-48 í hálfleik og Tindastóll í mjög ákjósanlegri stöðu.
Eitthvað virðast heimamenn hafa rætt saman í hálfleik því þeir skoruðu fyrstu 8 stig þriðja leikhlutans áður en Tindastólsmenn vissu hvað væri í gangi. Tindastóll náði að lokum að skora en fengu síðan strax á sig körfu á móti. Pavel tók fljótt fyrsta leikhléið sitt og Tindastóll náði aðeins að stilla sig af. Innkoma Geks af bekknum og Ragnars Ágústssonar gerði helling fyrir liðið en það leiðinlega atvik gerðist að undir lok þriðja leikhlutans skall Ragnar saman við William Gutenius og spilaði ekki meira í leiknum. Hann varð eini leikmaður liðs síns með jákvæða plús/mínus-tölfræði í lok leiks. Þriðja fjórðungnum lauk 55-59 og Tindastóll með nauma forystu.
Stjarnan náði að jafna stöðuna eftir að tvær mínútur voru liðnar af lokafjórðungnum en Stólarnir ríghéldu í forystuna með tveimur vítaskotum hjá Sigtryggi Arnari í næstu sókn. Góð barátta og sóknarfrákast hjá Stjörnunni leiddi til þess að þeir náðu að jafna aftur í næstu sókn og þá fór allt endanlega í skrúfuna hjá gestunum frá Sauðárkróki. Tindastóll gat ekki hitt úr neinu og liðið skoraði ekki körfu í heilar fjórar mínútur. Á sama tíma þá fór Stjarnan að keyra dálítið oft á vegg og veltu milli Adama Darboe og Armani Moore sem gaf nánast alltaf körfu, hvort sem það var annar hvor þeirra eða annar leikmaður sem losnaði vegna hreyfingar varnarinnar hjá Tindastóli.
Þegar hér var komið í leiknum sáu Stjörnumenn skyndilega að þeir gætu ekki bara unnið heldur gætu þeir tryggt sér innbyrðis gegn Tindastóli með því að enda leikinn með 10+ stiga forystu. Tindastóll hafði unnið fyrri leik liðanna með 9 stigum og ef Stjarnan gæti unnið þennan leik með fleiri stigum þá yrðu þeir alltaf ofar en Stólarnir ef liðin enduðu deildarkeppnina með jafn marga sigra.
Aðstoðarþjálfarar Tindastóls virtust finna þetta út á svipuðum tíma og við tók spennandi lokamínúta þar sem Stjarnan komst 11 stigum yfir á góðri innkastsfléttu en Tindastóll gat með þristi unnið innbyrðis viðureignina (þó að þeir töpuðu leiknum). Stólarnir fengu tvö tækifæri til að setja þristinn en allt kom fyrir ekki og Stjarnan vann leikinn með 11 stigum, 79-68.
Vendipunkturinn
Vendipunktur leiksins var líklegast upphaf seinni hálfleiksins þegar Stjörnumenn ákváðu hreinlega að vinna leikinn á hörkunni. Tindastóll skoraði aðeins 20 stig í öllum seinni hálfleiknum sem hlýtur að vera að einhverju leyti Stjörnunni að þakka.
Þó getur verið að meiðsl Ragnar Ágústssonar hafi verið mikilvægari en menn gera sér grein fyrir. Hann spilar 11 mínútur í leiknum og á meðan hann er inn á vinnur liðið þær mínútur með 15 stigum. Stólar leiða með 8 stigum þegar Ragnari var skipt út af með 3 mínútur eftir í þriðja leikhluta og hann gékk inn í klefa ásamt sjúkraþjálfara liðsins skömmu eftir að lokaleikhlutinn hófst, hugsanlega með heilahristing. Tindastóll endar á að tapa leiknum með 11 stigum.
Atkvæðamestir
Armani Moore átti góðan fyrsta leik fyrir Stjörnuna. Hann skoraði 20 stig, tók 8 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal einum bolta. Adama Darboe átti líka góðan leik með 16 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar. Þeir Moore og Darboe enduðu báðir með 22 í framlag, það hæsta í þeirra liði.
Hjá Tindastóli var fátt um fína drætti en stigahæstur var Sigtryggur Arnar Björnsson með 16 stig. Davis Geks átti góða innkomu og skoraði 13 stig ásamt því að rífa niður 8 fráköst. Hann varð framlagshæstur hjá gestunum með 17 framlagspunkta.
Tölfræðimolinn
Tindastóll snöggkólnaði í öðrum hálfleik. Þeir fóru úr því að hitta 18 skot í 36 tilraunum utan af velli í fyrri hálfleik (50%, þar af 10/23 í þristum) í að hitta aðeins úr 6 skotum í 31 tilraunum utan af velli í seinni hálfleik (19%, þar af 1/18 í þristum). Hrikalega hefur verið erfitt að skjóta á körfuna á hinum enda vallarins en körfuna sem þeir skutu á í fyrri hálfleik.
Stjarnan átti ekkert frábæran leik, en þeir hittu betur úr skotunum sínum (43% yfir allan leikinn) en Tindastóll (36% yfir allan leikinn). Það dugði til.
Kjarninn
Stjarnan situr nú í sjötta sæti deildarinnar, jafnir að stigum við Tindastól en með innbyrðis viðureignina á þá. Biðin eftir nýjum bandarískum leikmanni hefur verið þess virði og þegar Hlynur og Tómas Þórður koma aftur inn í liðið verður Stjarnan eflaust ótrúlega erfið viðureignar inn í teig.
Tindastóll fellur úr 6. sætinu í 7. sætið en eiga leik til góða (frestaður leikur gegn Hetti sem verður spilaður næsta mánudag, 13. febrúar) og gætu því komið sér aftur upp fyrir Garðbæinga og m.a.s. Breiðablik sem þeir eiga innbyrðis viðureign á. Kemur í ljós.
Umfjöllun og mynd: Helgi Hrafn Ólafsson