Deildabikarkeppni KKÍ, sem hefjast átti í lok þessa mánaðar, hefur verið aflýst í ljósi óvissunnar sem fylgir heimsfaraldri COVID-19, en mótanefnd KKÍ tilkynnti þátttökuliðum þessar fregnir með tölvupósti í dag.
Mikil óvissa hefur ríkt varðandi framhald keppni og æfinga í hópíþróttum í kjölfar takmarkana sem settar voru á í lok júlí, þegar samkomubann var takmarkað við 100 manns. Hefur bannið til að mynda haft mikil áhrif á keppni í Íslandsmótinu í knattspyrnu og er nú ljóst að áhrifin munu einnig teygja sig í körfuknattleikshreyfinguna.
Keppni í Domino’s deildum karla og kvenna á samkvæmt áætlun að hefjast í lok september og byrjun október.