Eftir örfáar vikur verður körfuboltaþorstanum loks svalað. Eftir ömurlegan endi á síðasta tímabili fer loksins að styttast í nýtt tímabil, það ef við losnum við þessa þreytandi veiru á næstunni. Ýmislegt hefur gengið á á félagaskipaglugganum og mörg stór skipti gengið í gegn.
Til gamans tók Karfan saman fimm stærstu félagaskipti sumarsins (að okkar mati) hingað til í Dominos deild karla.
Öll félagaskipti sumarsins má finna hér.
Fimm stærstu félagaskipti sumarsins í engri sérstakri röð má finna hér að neðan:
Jón Arnór Stefánsson til Vals frá KR
Þarf lítið að bæta við þetta. Geitin, líklega besti körfuboltamaður Íslands í sögunni. Óumdeildir hæfileikar og hugafar sem hann kemur með í lið Vals sem hefur ekki verið þekkt fyrir mikla körfuboltahefð síðustu ár. Einnig fer Jón frá KR yfir til Vals sem er ekki vinsælt vestur í bæ. Þrátt fyrir að Jón verði 38 ára á þessu ári á hann enn helling inni, hann lék 18 leiki með KR á síðustu leiktíð og leggur mun meira til innan vallarins en tölfræðina.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson til Hattar frá ÍR
Án efa stærstu félagaskipti Egilsstaða frá upphafi. Siggi kemur með mikla reynslu og 58 landsleiki inní lið nýliða Hattar. Klárlega merki um það að Hattarmönnum er full alvara og eru ekki bara mættir til að vera með. Sigurður átti frábært tímabil 2018-2019 með ÍR þar sem hann leiddi liðið í úrsitaeinvígi Íslandsmótsins. Aftur á móti er Siggi að koma til baka eftir krossbandaslit og því verður áhugavert að fylgjast með því hvernig hann kemur til baka.
Nick Tomsick til Tindastóls frá Stjörnunni
Einn allra besti leikmaður deildarinnar síðustu tvö ár. Nick kláraði nokkra leiki uppá eigin spýtur með Stjörnunni á síðustu leiktíð og var algjörlega frábær. Leikmaðurinn var með 20,1 stig og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik á síðustu leiktíð en 22,8 stig tímabilið þar á undan með Þór Þ. Endurnýjar hann kynnin við þjálfa sinn hjá Þorlákshöfn, Baldur Þór Ragnarsson nú á Sauðárkróki. Margir erlendir öflugir leikmenn eru væntanlegir í vetur og því verður fróðlegt að sjá hvort Nick nái að halda uppteknum hætti á komandi tímabili.
Sinisa Bilic til Vals frá Tindastól
Fyrsti leikmaðurinn sem Finnur Freyr fékk til Vals. Bilic hreif marga á síðustu leiktíð, hávaxinn og hreyfanlegur leikmaður sem getur leikið margar stöður á vellinum. Mjög fjölhæfur leikmaður sem mun reynast öflugur á báðum endum vallarins, var með 19,6 stig og 5,8 fráköst að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. Hefur leikið með öflugum liðum í Evrópu en þarf að sýna stöðugri frammistöðu á næstu leiktíð en hann sýndi á Sauðárkróki.
Everage Richardsson til ÍR frá Hamri
Stigakóngur 1. deildarinnar síðustu þrjú tímabil er loksins mættur í efstu deildina. Er með tvöfalt ríkisfang og leikur því sem íslenskur leikmaður í vetur líkt og með Hamri í fyrra. Elskar að setja boltann ofan í körfuna og er mikið með boltann, setur ekki eins mikið stolt í spilamennsku á hinum enda vallarins. Fáir þjálfarar eru betri til að taka við slíkum leikmönnum og Borche Ilievski. Verður spennandi að sjá hann með Evan og Sigvalda sem ættu að geta skipað sóknartríó sem ekkert lið ræður við. Það verður allavega gaman í Hellinum í vetur.
Á næstu dögum birtum við fimm stærstu félagaskipti sumarsins í Dominos deild kvenna.