spot_img
HomeNBALeBron James stigahæstur í sögu NBA

LeBron James stigahæstur í sögu NBA

LeBron James er stigahæsti leikmaður í sögu NBA deildarinnar. Metið sló hann í leik Los Angeles Lakers gegn Oklahoma City Thunder í nótt. LeBron, sem er 38 ára, sló þar með fyrra met Kareem Abdul Jabbar, 38.387 stig, sem hefur staðið óhreyft frá árinu 1989. Lýkur þar með tæplega 40 ára tíð Abdul Jabbar sem stigahæsti leikmaður í sögu NBA, en hann sló fyrra met Wilt Chamberlain þann 5. apríl 1984.

James vantaði 36 stig til að slá metið fyrir leik næturinnar og var eftirvæntingin mikil. Til að mynda seldust miðar á leikinn í Crypto.com Arena, heimavelli Lakers, á um 100 þúsund dollara. James olli engum vonbrigðum, og skoraði 38 stig. Metið sjálft sló hann með góðu “fadeaway” stökkskoti þegar skammt var eftir af þriðja fjórðungi leiksins.

LeBron James hefur nú skoraði 38.390 stig á tuttugu ára ferli sínum í NBA deildinni, sem hófst árið 2003. Miðað við frammistöðu hans á yfirstandandi tímabili er ljóst að kappinn á nóg eftir, og verður fróðlegt að sjá hve mörg stig hann mun hafa skorað er glæsilegum ferli hans lýkur.

Fréttir
- Auglýsing -