Íslenska kvennalandsliðið er komið til borgarinnar Miskolc í Ungverjalandi þar sem þær munu mæta heimakonum í næstsíðasta leik undankeppni EuroBasket 2023. Líkt og sjá má á samfélagsmiðlum KKÍ tekur liðið tvær æfingar í höllinni sem í verður leikið í dag.
Ein breyting var gerð á hópi íslenska liðsins rétt fyrir brottför, en inn í liðið kom Agnes María Svansdóttir fyrir Hildi Björgu Kjartansdóttur, sem er frá vegna meiðsla. Agnes María hefur áður leikið með yngri landsliðum Íslands, en þetta mun vera í fyrsta skipti sem hún eygir þess von að leika fyrir A landsliðið.
Leikurinn gegn Ungverjalandi fer fram komandi fimmtudag kl. 16:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á RÚV.
Í seinni leik gluggans, þeim síðasta í undankeppninni, mun Ísland svo taka á móti Spáni heima í Laugardalshöll komandi sunnudag 12. febrúar. Miðasala er hafin á þann leik og fer fram í gegnum smáforritið Stubb.
Hér má sjá hvaða 12 leikmenn verða í liðinu gegn Ungverjalandi
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil