Á blaðamannafundi í morgun á veitingastaðnum Sjálandi í Garðabæ tilkynnti Stjarnan að Ingi Þór Steinþórsson og Danielle Rodriguez hefðu verið ráðin sem aðstoðarþjálfarar Arnars Guðjónssonar í meistaraflokki karla.
Ingi Þór þjálfaði Íslandsmeistara KR á seinasta tímabili en leiðir hans og Vesturbæjarveldisins skildu fyrir skemmstu. Ingi Þór mun líka þjálfa drengjaflokk og unglingaflokk karla hjá Stjörnunni í samstarfi við Álftanes. Hann mun líka vinna með Hrafni Kristjánssyni sem aðstoðarþjálfari í 1. deildar liði Álftanes.
Dani Rodriguez hefur sagt skilið við KR sem leikmaður og yngri flokka þjálfari. Hún þekkir vel til hjá Stjörnunni verandi yngri flokka þjálfari hjá þeim ásamt því að hún spilaði fyrir meistaraflokk kvenna hjá Stjörnunni áður en liðið var lagt niður.
Arnar Guðjóns þjálfari fagnaði ráðningunum og talaði um að þau kæmu öll með mismunandi styrkleika til borðsins. Þetta öfluga teymi ásamt leikmannahópnum ætlaði sér ekkert annað en Íslandsmeistaratitil á næsta ári.
Viðtöl við Arnar Guðjóns, Dani og Inga Þór koma síðar í dag.