Þór Þorlákshöfn tilkynnti á fréttamiðlinum Hafnarfréttum fyrr í dag að liðið hefði samið við Jahii Carson um að spila með liðinu á næsta keppnistímabili.
Jahii er 180 cm leikstjórnandi sem hefur spilað víða, m.a. í Evrópu, Kanada og Ástralíu. Hann hafði fyrir það spilað í tvö ár í Arizona State áður en hann fór í NBA draftið 2014. Þó að hann hafi ekki verið valinn þar hefur hann spilað í Kanada, Grikklandi og Rúmeníu.
Hann meiddist á seinasta tímabili þegar hann spilaði á Kýpur en hefur á tímabilum sínum þar á undan skorað u.þ.b. 16 stig, tekið 3 fráköst og gefið 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Honum er lýst sem skorandi bakverði með mikla íþróttahæfileika.
Lárus Jónsson, nýráðinn þjálfari Þórs, bindur vonir við að Jahii komi inn í liðið sem leiðtogi og geri aðra í kringum sig betri.