Everage Richardson og ÍR hafa samið um að hann leiki með liðinu á komandi keppnistímabili. Þetta var tilkynnt á Facebook-síðu ÍR fyrir skömmu síðan. Everage fékkst í stutt spjall við Körfuna um félagaskiptin og hvað biði hans í ÍR.
Everage, sem er 34 ára og með íslenskt ríkisfang, er mikill skorari og var t.a.m. stigahæsti leikmaður 1. deildarinnar undanfarin tvö ár á meðan að hann spilaði með Hamri í Hveragerði.
Hann ber Hamri vel söguna og segir að það að spila þar hafi verið gott þrátt fyrir að þeir hafi ekki náð markmiðinu sínu í ár í ljósi krísunnar í kringum ótímabær endalok tímabilsins. „Á heildina litið voru þetta tvö frábær tímabil sem ég átti þarna en þeir skilja að ég er tilbúinn fyrir nýja áskorun, það að spila í Dominosdeildinni,“ sagði Everage, augljóslega spenntur fyrir framhaldinu.
Everage hefur þann skemmtilega titil að vera stigahæsti bandaríski atvinnumaður í heiminum árið 2012 þegar hann lék með Bodfeld Baskets í Þýskalandi. Það tímabil skilaði hann 42 stigum að meðaltali í leik og ávann sér gælunafnið Svarta Perlan.
Þrátt fyrir að vera mikill skorari er hann reiðubúinn í hvaða verkefni sem að Borche Ilievski, þjálfari ÍR, leggur fyrir hann. „Ég skil að hlutverk mitt verður öðruvísi í liði Borche en ég mun gefa mig allan í verkefnið til að ÍR nái markmiðum sínum á næsta tímabili,“ segir hann aðspurður um hvort að hlutverk hans gæti verið öðruvísi með ÍR en það var hjá Hamri.
ÍR hefur verið mikið í fréttum undanfarna daga og ljóst að þeir ætti ekki að láta sitt eftir liggja í að byggja upp nýtt og spennandi lið fyrir tímabilið næsta. Everage segir að það hafi einmitt verið stærsti þátturinn í að hann hafi ákveðið að ganga til liðs við þá. „Það var þetta hugarfar hjá ÍR um að vinna og að gera hvað sem að til þyrfti sem réð þessu,“ sagði hann og bætti við að lokum að hann væri mjög spenntu að fá að taka þátt í því.