Fyrir tæpum fjórum árum ákvað bakvörðurinn Guðlaug Björt Júlíusdóttir að halda vestur um haf og ganga til liðs við Florida Tech Panthers. Panthers leika í Sunshine State hluta annarrar deildar bandaríska háskólaboltans.
Áður en hún fór út, lék Guðlaug upp alla yngri flokka Njarðvíkur og með meistaraflokk liðsins. Þaðan fór hún fyrst til Grindavíkur, svo til Keflavíkur, þar sem hún lék síðast í Dominos deildinni. Með Keflavík skilaði hún 7 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik tímabilið áður en hún fór út. Þá hefur hún einnig leikið með yngri landsliðum Íslands.
Karfan hafði samband við Guðlaugu og spurði hana út í árin í háskólaboltanum og lífið í Melbourne, Florida.
Hvernig fannst þér þetta fjórða ár ganga með Florida Tech Panthers?
“Mér fannst fjórða árið mitt hjá Florida Tech ganga bara mjög vel. Ég náði að festa mig strax í lykilhlutverki innan liðsins á fyrsta ári en í USA háskólaboltanum þá snýst þetta mikið um að öðlast meiri ábyrgð innan liðsins með hverju árinu og núna þar sem ég var Senior var ég með stærra hlutverk sem fyrirliði liðsins. Þó að niðurstöðurnar úr leikjunum hefði stundum mátt vera betri þá fannst mér liðsheildin mjög sterkt síðastliðið tímabil. Um helmingurinn af liðinu er frá Evrópu og vorum við 5 stelpur frá Norðurlöndunum að byrja lang flesta leiki og því spiluðum við meira með evrópskum stíl heldur en fyrri ár”
Er mikill munur á lífinu í Melbourne og hér heima?
“Já, ég mundi segja að það væri mikill munur. Lífið í Melbourne hefur verið mjög ljúft þar sem að mér finnst í raun algjör foréttindi að hafa haft tækifæri á að búa á Florida á meðan ég er á körfuboltastyrk og að öðlast verkfræði gráðuna mína á sama tíma. Ég mundi segja að aðal munurinn væri veðrið þar sem mér finnst það bara gera allt svo mikið auðveldara og þar sem mér finnst fátt betra en að liggja á ströndinni”
Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima?
“Þar sem ég er búin að vera alveg fjögur tímabil úti þá hef ég náð að aðlagast vel en mér finnst aðal munurinn að það er miklu meiri agi og skipulag yfir öllu sem tengist körfuboltanum. Það fer alveg gríðarlegur mikill tími í körfuboltann á hverjum degi þar sem það er allt gert til þess að gera mann að betri leikmanni og liðið að betri liðsheild. Í gegnum árin í háskólaboltanum þá finnst mér hlutverkaskiptingin miklu sterkari heldur en heima þar sem hver og einn liðsmaður er með ákveðið hlutverk sem hann þarf að fylgja”
Er mikill munur á tímabilinu hér heima og úti í háskólaboltanum?
“Tímabilið sjálft er styttra úti en ég mundi samt segja að það væri meira álag yfir tímabilið heldur en heima þar sem það eru alltaf tveir leikir í viku og það er mikið um lengri ferðalög. Undirbúningstímabilið finnst mér allt öðruvísi þar sem það snýst miklu meira um styrk og þol í háskólaboltanum þar sem æfingar með bolta eru takmarkaðar út af NCAA reglunum á undirbúningstímabilinu”
Hvað er svona það helsta sem þú tekur frá því að hafa verið fjögur ár úti?
“Mér finnst þessi háskólaupplifun hafa verið bara heilt yfir mjög frábær lífsreynsla fyrir mig en það helsta sem stendur upp úr er aðallega fólkið sem ég hef kynnst. Florida Tech er ekki mjög stór skóli á USA mælikvarða en hann er mjög alþjóðlegur og hef ég því kynnst fólki alls staðar af úr heiminum. Mér hefur fundist alveg mjög gaman að búa á campus og fá að upplifa þessa amerísku háskóla hefðir beint í æð. Einnig held ég að ég muni líka seint gleyma hversu erfitt það var að æfa um kl. 5 á morgnana í gegnum öll þessi ár”
Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára skólann?
“Covid-19 faraldurinn hafði í raun ekki áhrif á körfuboltatímabilið mitt þar sem við duttum út í fyrstu umferð í Sunshine State deildar tournamentinu og lauk tímabilinu mínu því um viku áður en ég flaug heim til Íslands. Hins vegar urðu þetta mikil vonbrigði fyrir mig þar sem þetta var síðasta árið mitt úti og var ég mjög spennt fyrir öllu því sem fylgir vorinu í skólanum og útskriftinni sjálfri. Núna er alveg búið að hætta við útskrifta-athöfnina og er það mjög svekkjandi að ná ekki að hafa athöfn eftir að ég hef lagt mikið á mig síðustu 4 ár”
Nú varst þú að klára þitt nám þitt þarna úti, ertu eitthvað búin að ákveða hvað þú gerir í framhaldinu og hvar þú ætlar að spila?
“Ég útskrifast núna með B.S. í Mechanical Engineering eða vélaverkfræði frá Florida Institute of Technology og hef undanfarna mánuði verið að skoða skóla fyrir áframhaldandi nám. Ég ákvað á seinustu dögum að samþykkja boð frá KTH Royal Institute of Technolgy í Stokkhólmi þar sem ég mun hefja meistara nám í Industrial Management eða rekstrastjórnun næsta haust. Þar sem ég er í raun bara nýbúin að ákveða framhaldið þá hef ég ekkert náð að skoða möguleikana mína í körfunni en það kemur vonandi í ljós þegar nær dregur”