spot_img
HomeFréttirÞjálfarar hvetja félögin til þess að standa við skuldbindingar sínar

Þjálfarar hvetja félögin til þess að standa við skuldbindingar sínar

Stjórn þjálfarafélags körfuknattleiksþjálfara sendi frá sér beiðni til allra félaga um að standa við gerðar skuldbindingar við þjálfara. Fer félagið yfir þá fordæmalausu stöðu sem upp er komin vegna Covid-19 faraldursins og dregur það ekki í efa að róðurinn sé harður.

Bendir stjórnin á það að þó svo að tímabilið hafi endað snögglega, þá hafi tilmæli ÍSÍ og UMFÍ verið að engin æfingagjöld skuli endurgreidd, þar af leiðandi sé ekki fótur fyrir því að félögin segi upp þjálfurum eða standi ekki að einhverju leyti við gerða samninga við þá.

Bréfið er hægt að lesa í heild hér fyrir neðan.

Bréf félagsins:

Kæru forráðamenn félaga í körfuknattleikshreyfingunni


Á fordæmalausum tímum stöndum við frammi fyrir alls kyns vanda
í öllum stigum þjóðfélagsins. Íþróttahreyfingin fer ekki varhluta af
því. Nú er vettvangi körfuknattleiks kippt undan okkur í aðdraganda
háannatíma og í þessu tilviki eru þjálfarar í þeirri stöðu að störf
og/eða launamál margra eru í uppnámi.


Félag körfuknattleiksþjálfara á Íslandi kallar eftir því við
forráðamenn félaga að taka samtalið við þjálfara, bæði í
meistaraflokkum og yngri flokkum um stöðuna sem er uppi og
finna lausnir sem báðir aðilar geta unað við á þessu stigi á vægast
sagt erfiðum tímum.


Stjórn FKÍ hefur heyrt af félögum sem hafa leyst vel úr sínu með
yngri flokka þjálfurum, þess efnis að þeir taki skert laun í apríl og
maí. Þó hafa einnig borist fréttir af einhliða uppsögnum sem að
eru væntanlega brot á samningum og við fordæmum slíkar
aðgerðir.


Nú hefur komið fram frá ÍSÍ og UMFÍ að foreldrar geta ekki óskað
eftir endurgreiðslu á æfingagjöldum, og þá liggur líka fyrir að
æfingagjöld, frístundastyrkir, og mögulega þjálfarastyrkir hafa
skilað sér inn í félögin svo við sjáum ekki annað en að félögin eigi
að geta staðið við samninga þó svo að eðlilega þurfi víða að finna
samkomulag um einhverja skerðingu.


Hugsum til framtíðar í okkar ákvörðunum og pössum upp á hvert
annað.

Með einlæga von um bjartari tíma,
Stjórn Þjálfarafélags Íslands í körfu – FKÍ

Fréttir
- Auglýsing -