ÍR lagði Grindavík í kvöld í 15. umferð Subway deildar karla, 91-90. Eftir leikinn er Grindavík í 7. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að ÍR er í 11. sætinu með 8 stig.
Það voru gestirnir úr Grindavík sem hófu leik kvöldsins og leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 20-27. Undir lok fyrri hálfleiks bæta þeir svo enn við forystu sína og er Grindavík12 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 39-51.
Heimamenn ná svo að koma aðeins til baka í þriðja leikhlutanum og halda sér inn í leiknum inn í lokaleikhlutann, 63-69. Undir lok leiks ná þeir svo enn frekar að vinna muninn niður, en missa Grindvíkinga jafn hratt frá sér. Í lokaáhlaupi sínu ná þeir þó með miklu harðræði frá Taylor Johns að komast yfir með 5.8 sekúndur á klukkunni, 91-90. Lokasókn Grindavíkur rennur út í sandinn og niðurstaðan að lokum sigur heimamanna í ÍR með minnsta mun mögulegum, 91-90.
Bestur í liði ÍR í kvöld var Luciano Masarelli með 25 stig, 8 fráköst og Taylor Johns bætti við 17 stigum og 14 fráköstum.
Fyrir Grindavík var Damier Pitts atkvæðamestur með 28 stig og 8 stoðsendingar.
Næst á ÍR leik þann 9. febrúar gegn Breiðablik í Smáranum. Grindavík á ekki leik fyrr en degi seinna, þann 10. febrúar gegn Njarðvík heima í HS Orku Höllinni.
Myndasafn (Atli Mar / Væntanlegt)