spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaSigvaldi eftir tveggja ára veru hjá ACB liði Monbus Obradoiro "Tel mig...

Sigvaldi eftir tveggja ára veru hjá ACB liði Monbus Obradoiro “Tel mig alveg eiga fullt erindi”

Fyrir tæpur tveimur árum síðan samdi hinn efnilegi, þá 17 ára, Sigvaldi Eggertsson við ACB lið Monbus Obradoiro um að æfa og spila fyrir félagið til tveggja ára. ACB deildin spænska af mörgum talin sú sterkasta í heiminum fyrir utan NBA deildina í Bandaríkjunum og úrvalsdeildina Euroleague. Þrátt fyrir að hafa ekki unnið titilinn spænska, hefur Obradoiro haldið sér í þessari deild þeirra bestu á Spáni síðasta tæpa áratuginn.

Sigvaldi að sjálfsögðu einn af efnilegri leikmönnum Íslands síðastliðin ár. Bæði verið hluti af öllum yngri landsliðum landsins, sem og leikið fyrir uppeldisfélag sitt í KR, ÍR og þá síðast Fjölni áður en að hann fór út. Hjá síðastnefnda félaginu skilaði hann 19 stigum og 6 fráköstum að meðaltali í leik í fyrstu deildinni tímabilið 2017-18.

Í sterkri deild eins og ABC hafa tækifærin með aðalliði félagsins verið af skornum skammti fyrir leikmanninn á þessum tveimur árum, en Sigvaldi hefur æft með liðinu, sem og æft og leikið með varaliði þess í EBA deildinni. Karfan setti sig í samband við leikmanninn og spurði hann aðeins út í veruna á Spáni og hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Hvernig fannst þér þetta annað ár ganga hjá þér hjá Obradoiro?

“Seinna árið byrjaði mjög vel ég fékk að taka þátt í undirbúningstímabilinu með ACB-liðinu og það var frábær reynsla. Við í b-liðinu (EBA) byrjuðum einnig á að sigra 9 af fyrstu 11 leikjunum og mér gekk vel að gera mitt og það var eiginlega hápunktur tímabilsins. ACB-liðið tók mig síðan aftur upp í æfingahóp þegar ég hafði náð mér á gott strik og var ég þá að æfa með bæði ACB og EBA-liðinu. Þá tók annar kafli við ég var auðvitað undir rosalegu æfingaálagi og oftast þrjár liðsæfingar á dag í heildina. Sem gaf mér lítinn tíma til að vinna í mínum eigin leik og hvílast. Þetta tók mikið á andlegu hliðinni og hafði mikil áhrif á minn leik og leik EBA-liðsins þar sem aðrir ungir strákar voru í því sama og ég. Ég hugsaði oft um að reyna að komast aftur heim og ég náði mér ekkert almennilega á strik þar til ég tók bara þá ákvörðun að klára tímabilið alveg sama hvað”

“Þá var kominn febrúar og stuttu seinna var tímabilinu frestað vegna Covid-19 ástandsins. Það er ekki en búið að staðfesta það svo að ég viti hvort tímabilinu verði aflýst en mér þykir það þó líklegast vegna þess að ástandið er orðið mjög slæmt þarna”

Hvernig var að vera hjá liði í ACB þessi síðustu tvö tímabil?

“Það var mjög góð reynsla að fá að æfa og spila með ACB-hópnum þeir voru allir mjög fagmannlegir og besti æfingahópur sem ég hef verið partur af. Það gekk mjög vel með þeim og ég tel mig alveg eiga fullt erindi þangað”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima, hver er helsti munurinn?

“Það er mjög mikill munur. Boltinn úti gengur mjög mikið út á reglur, hver einasti maður hefur sitt hlutverk og þjálfarinn er alltaf æðri leikmönnunum, maður kemst ekki upp með neitt rugl þar. Ég var til dæmis með mitt hlutverk sem var mest megnis bara að skora þriggja-stiga körfur. Í boltanum heima er mun meira frelsi og þar var ég vanur að taka fleiri ákvarðanir og vera meira með boltann í höndunum. Þetta hefur auðvitað allt sína kosti og galla en ég tel mig hafa vanist spænska leiknum vel”

Nú er þetta nokkuð stór deild sem aðalliðið er í, hvernig eru aðstæður fyrir æfingar og leiki hjá svona liði?

“Ég get ekkert sett út á aðstöðurnar fyrir leikmenn ACB-liðsins þeir eru með frábæran sal sem þeir komast í hvenær sem þeir vilja auk sjúkraþjálfara, styrkarþjálfara, næringarráðgjafa og allann pakkann bara. Þjálfarinn hættir til dæmis aldrei að vinna þótt það sé eftir sætan sigurleik eða súrt tap þá er hann alltaf mættur á næstu æfingu að undirbúa okkur og gera klárt fyrir næsta leik. Eina sem ég get sett út á starfsemi þeirra voru bara samskiptin á milli ACB-liðsins og EBA-liðsins því bæði lið sáu mig og fleiri bara sem “sína leikmenn” og keyrðu okkur alveg út og lögðu litla áherslu á að stjórna álagi fyrir unga leikmenn sem voru að æfa fyrir bæði lið”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði?

“Já það voru auðvitað smá vonbrigði því ég hafði ákveðið að klára tímabilið og mér leið töluvert betur. En ég get þó ekki kvartað of mikið því mér finnst alltaf gott að koma heim til Íslands. Nú getur maður bara horft á þessa skrýtnu tíma sem tækifæri til þess að byggja á einhverju nýju og vinna í sjálfum sér, ég hef alla trú á því að við komumst útúr þessu full af hugmyndum og góðri orku”

Upphaflega gerðir þú tveggja ára samning við liðið, sem er þá væntanlega á enda eða brátt á enda, ertu eitthvað búinn að ákveða hvað þú gerir í framhaldinu?

“Samningurinn minn við liðið rennur út í sumar og ég býst ekki við að framlengja við þá. Ég er opinn fyrir því að spila úti á næsta tímabili en ég hef ekki ákveðið neitt, sú ákvörðun verður tekin í sumar. Ég þarf auðvitað að horfa í hvernig þessi lönd munu ná sér eftir Covid-faraldurinn þannig ég er líka opinn fyrir því að spila heima næsta vetur. En það kemur allt í ljós í sumar, nú skiptir mestu máli að bera ábyrgð og reyna að halda okkur sem mest heima og komast í gengum í gegnum þetta saman”

Fréttir
- Auglýsing -