spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÖrvar Þór: Rökrétt að afhenda mínum mönnum í Njarðvík titilinn

Örvar Þór: Rökrétt að afhenda mínum mönnum í Njarðvík titilinn

Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næstur í röðinni er Örvar Þór Kristjánsson, fyrrum þjálfari hjá Njarðvík, Fjölni, ÍR, Grindavík og Stjörnunni.

Hvernig er að vera án körfubolta útaf þessum aðstæðum?

“Það er í einu orði sagt sorglegt. Þetta eru aðstæður sem enginn sá fyrir og í raun pínu óraunverulegt. Nú er að fara í hönd sá tími sem þetta er skemmtilegast, ég finn mikið til með leikmönnum, þjálfurum og ekki síst stjórnarmönnum sem treysta á þennan tíma sem stóran þátt í tekjuöflun vetrarins”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Heilsa og öryggi allra. Hlusta á okkar sérfræðinga í framlínunni sem að mínu mati hafa tekið góðar ákvarðanir og núna liggur það fyrir að ekki verður hægt að keppa næstu 4 vikur hið minnsta. Það er því ekkert annað í stöðunni en að aflýsa tímabilinu, senda atvinnumennina heim. Því miður er það hin eina rökrétta ákvörðun sem hægt er að taka í þessum aðstæðum”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Í fyrra vann KR Íslandsmeistaratitilinn en þeir enduðu í 5.sætinu í deildinni. Það væri því rökrétt að afhenda mínum mönnum í Njarðvík titilinn enda eru þeir í 5.sætinu núna. Nei án alls gríns þá hefur Stjarnan unnið fyrir deildartitlinum og eiga skilið að fá hann eins og Valur kvennamegin. Ekkert lið Íslandsmeistari í ár enda engin úrslitakeppni. Fjölnir niður og Höttur upp hjá körlunum. Fjölga svo liðum í efstu deild kvenna upp í 10, prófa það”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?

“Það er erfitt að segja til um það en ég efast stórlega um það. En félögin verða að svara því. Nái KKÍ að sannfæra ríkisvaldið um að styrkja félögin (sem ég efast um) þá væri allt hægt. En það má gera ráð fyrir að samningar renni út og t.d atvinnumenn fari annað svo það yrðu aldrei þessi sömu lið og kláruðu mótið núna svo þetta er óraunhæft tel ég”

Að lokum, með hverju mælir Örvar í samkomubanninu?

“Ungir iðkendur duglegir að fara á völlinn núna þegar fer að vora. Hafði gaman að sjá það í gær að krakkar mættu á körfuboltavellina með skóflur og hugsa í lausnum. Njóta tímans með fjölskyldunni og það er ekki verra að nýta tímann til þess að rifja upp gamla leik. Friðrik Ingi Rúnarsson vinur minn hefur sett inn margar gamlar perlur á youtube, mæli með því”

Fréttir
- Auglýsing -