Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.
Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.
Næst í röðinni er Kristjana Eir Jónsdóttir, þjálfari úr Keflavík sem einnig hefur þjálfað yngri landslið Íslands.
Hvernig er að vera án körfubolta útaf þessum aðstæðum?
“Ég og fjölskyldan mín erum oft spurð hvort við tölum um eitthvað annað en körfubolta, þannig að vera án körfubolta í þessum aðstæðum gerir daginn klárlega töluvert tómlegri. En gamlir leikir á youtube stytta stundir. Svo eyðir maður tíma með því að plana æfingar fyrir sumarið, leita að nýjum æfingum, ég finn leið til að koma körfubolta inn í daginn”
Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?
“Heilsa leikmanna og annarra sem koma að leiknum þarf að vera í forgangi. En ef það er smuga á að spila þegar ástandið hefur róast á klárlega að gera það. Japan er nú byrjað að spila aftur og fleiri deildir stefna að því. Svo lengi sem kostnaður félaganna fari ekki upp úr öllu valdi”
Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?
“Enginn ætti að fá þann stóra, úrslitakeppnin er allt annar leikur en deildarkeppnin og ég held að enginn vilji fá titilinn án þess að fara í gegnum úrslitakeppnina. Þar sem Fjölnir er fallið, karla megin, ætti eitt lið að fara upp og eitt niður. Í ágúst ætti að vera best-of-3 sería milli Hattar og Hamars upp á hvort liðið fer upp, en bæði þau lið eru í séns á deildarameistaratitlinum þar. Kvennamegin er ekkert lið staðfest fallið, en það lítur út fyrir að Grindavík muni falla. Þar sem deildarmeistarar 1. deildar kvennamegin fara ekki sjálfkrafa upp ættu Grindavík og Fjölnir að spila best-of-3 seríu í ágúst um hvort liðið tekur sætið í úrvalsdeild. Þannig fá bæði lið séns á að ná sætinu”
Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?
“Já, flest liðin verða klár í það og ég held að allir bíði eftir að geta fengið að spila körfubolta aftur. Erlendir leikmenn ættu að fá að fara heim, ef þeir vilja, og koma svo aftur þegar mótið hefst að nýju. Það ætti samt að opna á félagaskipti aftur í einhvern tíma, en takmarka það við erlenda leikmenn, loka síðan áður en úrslitakeppni hefst”
Að lokum, með hverju mælir Kristjana Eir í samkomubanninu?
“Finna sér eitthvað að gera! Rækta nýja hæfileika eða finna ný áhugamál.
Dæmi um afþreyingu:
- Læra að forrita
- Læra að prjóna
- Spila tölvuleiki
- Út að labba
- Gera heimaæfingar frá klefinn.is
- Læra nýtt tungumál
- Lesa bækur”