spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÓlafur Jónas: Nokkuð viss um að við gætum vel haldið okkur í...

Ólafur Jónas: Nokkuð viss um að við gætum vel haldið okkur í formi þó svo að mótinu yrði frestað

Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næstur í röðinni er þjálfari ÍR í fyrstu deild kvenna, Ólafur Jónas Sigurðsson. ÍR hefur leikið vel það sem af er á sínu öðru tímabili í deildinni eftir að félagið ákvað að endurvekja liðið. Sem stendur í öðru sæti deildarinnar, aðeins fjórum stigum fyrir neðan Fjölni í fyrsta sætinu.

Hvernig er að vera án körfubolta útaf þessum aðstæðum?

“Úff, þetta er náttúrlega alveg hrikalega erfiðar aðstæður. Loksins þegar að besti tími ársins er kominn og við loks á leið í úrslitakeppnina. En eins og staðan er núna í heiminum er að sjálfsögðu fullur skilningur fyrir þessu og við eins og allir aðrir tökum þessu og gerum allt sem við getum til þess að fara eftir fyrirmælum Almannavarna og sérfræðinga um þessi mál”

“Maður fær í staðinn hellings tíma með fjölskyldunni og getur notið þess að vera meira með þeim meira”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Ég veit að það mæðir alveg gríðarlega mikið á KKÍ akkúrat núna og ég ber mikla virðingu fyrir þeim því þetta eru ekki spennandi ákvarðanir sem þeir þurfa að taka. Við vitum það að þetta mun koma sér illa fyrir einhver lið og kannski betur fyrir önnur en ég öfunda þá ekki við að þurfa að taka þessar ákvarðanir. Auðvitað er mikilvægast að finna einhverjar lausnir á þessum helstu svörum sem allir eru að bíða eftir en við verðum að treysta forystunni okkar hérna í körfunni (KKÍ). Ég held að það mikilvægasta hjá þeim sé að hafa hag fjöldans til hliðsjónar þegar þessi ákvörðun verður tekin”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Ég er alveg á því að það sé ekki hægt að krýna Íslandsmeistara ef það er engin úrslitakeppni og ég veit fyrir víst að það eru fáir keppnismenn sem eru til í að taka á móti Íslandsmeistaratitli útaf því að tímabilinu var flautað af. En hinsvegar eru allir búnir að leggja allt sitt í sölurnar og að sjálfsögðu er fúlt að enginn verði krýndur meistari”

“Varðandi lið sem eiga að falla og fara upp. Þarna er ég alls ekki óhlutdrægur þar sem við erum í baráttunni um að komast upp. Að sjálfsögðu vil ég spila úrslitakeppni og vinna okkur sæti í Dominos en við vitum að það er ansi líklegt að svo verði ekki. Ég væri til í að sjá stærri deild í Dominos deild kvenna á næsta ári. Það væri þá hægt að hafa það sem prufu ár þar sem liðum yrði fjölgað. Sérstaklega í ljósi þess að Þór Ak og Stjarnan ætla sér að vera með lið í fyrstu deildinni á næsta ári. En ég veit að þetta er kannski langsótt og það þyrfti að sjálfsögðu að bjóða fleiri liðum upp en efstu tveimur. Ómögulegt að segja”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?

“Við gerum bara það sem KKÍ leggur upp með. Ef þeir ákveða að fresta þá vinnum við bara út frá því. Akkúrat núna þá útbjó ég æfingar fyrir stelpurnar sem þær geta gert heima hjá sér svona á meðan við vitum hver útkoman verður. En við erum svo búin að athuga hvort stelpurnar vilji æfa saman eða einar heima og það vildu allar æfa saman á meðan þessu stendur. En þá förum við að sjálfsögðu eftir öllum þeim reglum sem hafa verið settar. Passa uppá að hver og ein sé með sinn bolta sem þær sápuþvo og spritta fyrir og eftir æfingar. Passa uppá að hafa a.m.k 2 m á milli leikmanna og allt það sem er búið að setja upp með. Það er svo 100% skilningur ef leikmenn treysta sér ekki til þess og við myndum ekki æfa eins oft í viku saman eins og við höfum gert í vetur”

“Það er nefnilega hellingur sem hægt er að gera þó svo við getum ekki verið í contact og spila. Ég er nokkuð viss um að við gætum vel haldið okkur í formi þó svo að mótinu yrði frestað en að sjálfsögðu myndum við vera ryðgaðar í spilinu en það yrðu önnur lið svo sem líka”

Að lokum, með hverju mælir Ólafur Jónas í samkomubanninu?

“Ég mæli með því að fólk njóti þess að vera með fjölskyldunni sinni. Spila, horfa á þætti eða myndir, lesa, fara út í göngutúra eða á leikvöllinn og svo margt fleira. En svo held ég að það sé rosalega mikilvægt að hreyfa sig, hreinlega til að halda geðheilsunni. Það getur verið erfitt að hanga heima hjá sér svona lengi sérstaklega þegar maður er vanur að vera meira og minna að vinna eða þjálfa”

Fréttir
- Auglýsing -