spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValur varði deildarmeistaratitilinn í leik gegn baráttuglöðum Vesturbæingum

Valur varði deildarmeistaratitilinn í leik gegn baráttuglöðum Vesturbæingum

Íslandsmeistarar Vals lögðu KR fyrr í kvöld í 24. umferð Dominos deildar kvenna. Með sigrinum tryggði Valur sér deildarmeistaratitilinn 2020, en þær eru nú með 44 stig, 10 stigum á undan KR í öðru sætinu, þegar að fjórar umferðir eru eftir.

Það voru gestirnir úr Vesturbænum sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu með 6 stigum, 18-24. Undir lok fyrri hálfleiksins herða heimakonur þó á sínum áherslum og snúa taflinu algjörlega sér í vil. Mikið til var það að fordæmi Helenu Sverrisdóttur, sem skoraði heil 18 stig í fyrri hálfleiknum, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 43-35.

Valskonur mæta svo mun meira tilbúnar út til seinni hálfleiksins heldur en KR. Strax á upphafsmínútum seinni hálfleiksins byggja þær upp þægilega forystu. Valur með 19 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 71-52. Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir KR til þess að vinna muninn niður í fjórða leikhlutanum, þar sem þær komast mest sjö stigum næst þeim, þá kemur allt fyrir ekki og Valur siglir að lokum nokkuð öruggum 7 stiga sigri í höfn, 84-77.

Atkvæðamest fyrir heimakonur í leiknum var Helena Sverrisdóttir, en hún skilaði 23 stigum, 10 fráköstum og 4 stoðsendingum. Fyrir gestina úr Vesturbænum var það Danielle Rodriguez sem dróg vagninn með 18 stigum, 8 fráköstum og 11 stoðsendingum.

Kjarninn

KR leikur enn án landsliðsmiðherjans Hildar Bjargar Kjartansdóttur, því kannski að einhverju leyti viðbúið að þær eigi erfitt uppdráttar gegn góðu liði Vals í kvöld. Breytir því þó ekki að sigur Vals á KR var sá fjórði í deildinni í vetur í fjórum leikjum. Eini sigur KR á Val á tímabilinu til þessa kom í undanúrslitum bikarkeppninnar. Mjög líklegt er að þessi lið mætist í úrslitum seinna í vor. Það er spurning hvort að Valur nær að halda þessu taki sem þær eru með á KR áfram þar?

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -