spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaKR náði í tvö stig í Síkið

KR náði í tvö stig í Síkið

Tindastóll tók á móti KR í 1. deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Leikurinn fór fjörlega af stað en Stólastúlkur, sem skörtuðu nýjum erlendum leikmanni Jayla Nacole, áttu í erfiðleikum með að ná aga í sinn sóknarleik sem virkaði tilviljunarkenndur. Gestirnir komust í 2-7 snemma leiks en heimastúlkur náðu góðum spretti í vörninni og komust yfir 10-7. Þá kom sprettur á móti frá KR og þær leiddu eftir fyrsta leikhlutann 12-15. Í upphafi annars leikhluta tóku gestirnir öll völd á vellinum og náðu 18-2 spretti og staðan eftir rúmar 4 mínútur var orðin 14-33 og ljóst að brekkan yrði erfið hjá heimastúlkum. Þær náðu þó að krafsa í bakkann, einkum með góðum leik Emese Vida á báðum endum vallarins. Staðan í leikhléi var 31-43 en það var áhyggjuefni fyrir heimastúlkur að einungis 3 leikmenn voru búnir að setja punkta á skorkortið, Jayla Nacole með 15 stig, Emese Vida með 14 og Eva Rún með 2 stig.

Munurinn hélst áfram 10-12 stig inn í þriðja leikhlutann en annar bragur var á sóknarleik heimastúlkna sem stilltu betur upp í kerfi sem leiddi til þess að fleiri leikmenn voru að fá skotfæri. Inga Sól nýtti það vel og setti 6 stig á góðum kafla auk þess að leika fína vörn og taka fráköst. Góður leikhluti hjá henni en dugði því miður ekki til að minnka muninn að ráði þar sem gestirnir náðu alltaf að svara körfum Stóla. Staðan 47-59 eftir þriðja leikhluta. Gestirnir úr KR náðu að halda Tindastól frá sér í fjórða leikhluta og þrátt fyrir góða baráttu náðu Stólar ekki að koma muninum neðar en 7 stig og leikurinn endaði með 8 stiga sigri gestanna 64-72 eftir að Jayla Nacole hafði skorað síðustu 4 stigin á síðustu mínútunni.

Hittni liðanna var svipuð innan 3ja stiga línunnar en utan hennar var töluverður munur, gestirnir hittu úr 9 af 35 skotum þaðan en heimastúlkur voru 1 af 16. Jayla Nacole endaði með 37 stig og 8 fráköst (24 í framlag) og Emese Vida 17 stig og 8 fráköst. Fyrirliðinn Eva Rún skoraði einungis 4 stig en reif niður 14 fráköst og deildi út 5 stoðsendingum. Hjá KR-ingum var Violet Morrow langstigahæst með 27 stig auk 11 frákasta en Fanney Ragnarsdóttir átti líka frábæran leik með 14 stig og 9 fráköst og var framlagshæst með 27 framlagspunkta. Hjá gestunum lögðu 9 leikmenn inn stig í sarpinn en einungis 4 hjá Stólum sem er áhyggjuefni.

Myndasafn

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -