Það var sannarlega barist um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni í Ólafssalnum fagra í kvöld. Haukar fengu Stólana í heimsókn að norðan en liðin sitja eins og síamstvíburar í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Liðin hafa safnað 22 stigum í 17 leikjum og eru bæði tvö með 71 stig í plús! Tólf stiga sigur Stólanna í fyrri leik liðanna á Króknum skilur liðin að. Sigur Hauka væri því nánast tvöfaldur nái þeir að vinna með 13+ stigum í kvöld – við skulum skyggnast inn í framtíðina og sjá hvort von sé til þess…
Spádómskúlan: Kúlan er yfirleitt rómantísk og dulúðleg en er í jarðbundnu ástandi þennan daginn. Í ljósi tvíburaeðlis liðanna verður leikurinn framlengdur í það minnsta einu sinni en heimamenn sigra að lokum 102-96. Haukar hafa verið á góðri siglingu að undanförnu á meðan Stólarnir hafa m.a. tekið upp á því að tapa gegn Val á heimavelli!! Í ljósi þess er það næstum því sigur fyrir gestina að ná framlengingu.
Byrjunarlið:
Haukar: Hjálmar, Flen, Kári, Emil, Robinson
Stólar: Perko, Bilic, Viðar, Pétur, Geiger
Gangur leiksins
Það var útlit fyrir að úrslitakeppnisvarnarleikur myndi einkenna leikinn. Um miðjan leikhlutann var staðan 3-8 og bæði lið, einkum heimamenn, hittu andskotann ekki neitt! Að einum fjórðungi loknum var staðan 11-14! Þrátt fyrir sterkan varnarleik er 0% þriggja stiga nýting dapurleg, 0/17 hjá liðunum samanlagt. Flen og Rob höfðu sett 10 stig af 11 fyrir Hauka en stigadreifing gestanna var til fyrirmyndar.
Gestirnir hófu annan leikhluta af krafti. Simmons kom sterkur inn af bekknum og Nesi setti fyrsta þrist leiksins! Þegar 3 mínútur voru liðnar tók Martin leikhlé enda staðan orðin 13-27. Hlutirnir löguðust hægt hjá Haukum og lentu 15-29 undir eftir flat-þrist frá Simmons. Þá setti Kári langþráðan þrist og Emil fylgdi fordæmi hans í næstu sókn eftir að Perko skilaði sér ekki til baka – sem er alveg bannað, jafnvel þó svo menn séu 38 ára! Bilic hitnaði hins vegar fyrir Stólana sem og Pétur og gestirnir náðu 15 stiga forskoti, 27-42 þegar skammt var til hálfleiks. Haukar áttu hins vegar síðustu fjögur stig leikhlutans og löguðu stöðuna í 31-42.
Flen var erfiður á póstinum og átti fyrstu 4 stig seinni hálfleiks. Stólarnir svöruðu því hins vegar með 8 stigum í röð en þrjú þeirra komu eftir að Jaka var skilinn eftir fyrir utan þriggja stiga línuna í svona korter! Geiger var reyndar um 8 mínútur að koma auga á hann en tíminn var nægur og ekkert nema net. Þá var staðan 35-50 og Martin tók leikhlé. Ekki skánaði staða heimamanna strax og Perko kom gestunum 18 yfir með þristi þegar 6 mínútur voru eftir af þriðja, staðan 38-56. Neyðin kennir naktri konu að spinna og Haukum að spila vörn. Ekki að hún hafi verið slæm en það sem eftir lifði leiks spiluðu heimamenn vatns- og loftþétta vörn. Kári fann á sama tíma taktinn sóknarmegin og bjó til stig á alla vegu fyrir sína menn. Haukar skoruðu 17 á móti 6 stigum gestanna það sem eftir lifði leikhlutans og staðan 55-62 að honum loknum.
Baldur hafði vafalaust allnokkrar áhyggjur af sóknarleiknum á þessum tímapunkti og Perko var ekkert að hjálpa þjálfara sínum með því að bókstaflega rétta Haukum boltann sem endaði með þristi frá Hauki Óskars. Þegar 6 mínútur voru eftir minnkaði svo Kári muninn með þristi í 65-68 og fjölmargir stuðningsmenn gestanna við það að leysast upp í öreindir sínar af stressi. Gestirnir náðu þá að svara lítið eitt með 4 harðsóttum stigum og staðan var 69-74 þegar 2 mínútur voru eftir. Þarna hafði Flen verið atkvæðamikill undir körfunni og fékk ítrekað víti en nýtti þau afskaplega illa. Kári reyndi að bæta það upp með þristi og minnkaði muninn í 2 stig og stuttu síðar minnkuðu Haukar aftur muninn í 2 stig – þá var staðan 74-76, mínúta eftir og allt tryllt í Ólafssalnum! Haukar fengu tækifæri til að jafna eða komast yfir þegar rúmar 30 sekúndur voru eftir en gegnumbrot Kára misheppnaðist. Haukar ákváðu að brjóta þó 6 sekúndna munur væri á leik- og skotklukku. Geiger fór á línuna í tvígang það sem eftir lifði leiks og setti 3 af 4 skotum sem dugði til sigurs. Kári reyndi ævintýraskot frá miðju í blálokin en var langt frá því að þessu sinni. Lokatölur 76-79 í frábærum körfuboltaleik!
Menn leiksins
Varnarleikur var saga leiksins. Þó svo að Perko hafi átt áberandi slæma spretti í leiknum verður að útnefna hann sem mann leiksins. Hann átti mestan þátt í því að hægja á nautinu undir körfunni, tók 14 fráköst og skoraði einnig 13 stig og gaf 3 stoðsendingar.
Nafni var frábær hjá Haukum, skoraði 22 stig, gaf 8 stoðsendingar og hirti 5 fráköst. Emil Barja hefur verið í góðu stuði undanfarið og var enginn eftirbátur Kára með 11 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Flen setti 21 stig en klúðraði jafnmörgum vítum og hann tók fráköst eða 7 talsins.
Kjarninn
Þessi leikur var stórt próf fyrir Haukaliðið og niðurstaðan var kannski 4,4 í einkunn. Stóru prófin koma svo á færibandi eftir þetta agalega langa hlé sem nú verður á deildarkeppninni en Haukar mæta hverju stórliðinu á fætur öðru í mars. Þeir þurfa að lesa og læra í fríinu eins og skepnur og hækka einkunnina eilítið. Þá gæti liðið náð heimaleikjarétti í úrslitakeppninni.
Stólarnir lentu hreinlega í slysi á heimavelli á móti Val. Það er fyrsta málsgrein kjarnans hvað Stólana varðar því lið sem tapar heima á móti Val á ekkert að eiga séns í Hauka á útivelli. Menn hafa mismikla trú á liðinu og sumir hafa afskrifað möguleg afrek liðsins í úrslitakeppninni. Áhyggjur hafa verið viðraðar um styrk þeirra undir körfunni sem er kannski skiljanlegt þar sem Perko gamli hefur ekkert átt stjörnuleiki undanfarið. En í kvöld héldu Stólarnir svo gott sem jöfnu í fráköstunum og Perko gamli seigi tók helmingi fleiri fráköst en nautið Flen! Skilaboðin sem Tindastóll sendir frá sér eru a.m.k. jákvæð með þessum sterka sigri.
Umfjöllun / Kári Viðarsson