B-lið Breiðhyltinga tók á móti litháenska liði Stál-Úlfs í Seljaskóla í gærkvöldi í 2. deild karla. Sveiflukennt spil liðanna gerði leikinn mjög spennandi en ÍR-ingar náðu að lokum að vinna 89-84.
Júlíus Þór, fyrrum leikmaður ÍR b, hafði skipt nýlega yfir í Stál-Úlf og var því að mæta fyrrum liðsfélögum sínum í fyrsta sinn á nýju ári.
ÍR b byrjaði leikinn ekkert sérlega vel og átti í basli með að stöðva gestina í sóknum sínum. Á einum kafla tók Stál-Úlfur 9-0 áhlaup og sóknir heimamanna virtust mjög staðar. Stál-Úlfur leiddi með níu stigum eftir fyrsta leikhlutann, 25-16.
ÍR breytti aðeins í til í öðrum leikhlutanum og hætti að reyna að stöðva gestina með maður á mann vörn. Breiðhyltingar settu upp í 2-3 svæðisvörn og skyndilega varð allt mjög erfitt fyrir gestina. Skotin hættu að detta og á hinum enda vallarins fór sóknin loks að smella hjá heimaliðinu. Þeir tóku meðal annars 14-2 áhlaup um miðbik leikhlutans, sem fór 25-9 fyrir ÍR b. Algjör viðsnúningur! Staðan í hálfleik var 41-34 fyrir Breiðholtsliðinu.
Stál-Úlfur nýtti hálfleikshléið mjög vel því að þeir mættu ofboðslega beittir inn í seinni hálfleikinn. Þeir hreyfðu boltann betur gegn svæðisvörn ÍR b og, það sem meira er, þeir fóru að hitta úr skotunum sínum. Á tíu mínútum settu þeir átta þrista og mest fjóra í röð! Seinasti þristurinn kom gestunum yfir rétt undir lok þriðja leikhluta og liðin fóru því inn í lokafjórðunginn í stöðunni 64-65, Stál-Úlfi í vil.
Seinasti fjórðungurinn var jafn og liðin voru yfirleitt aeðins einni körfu frá hvert öðru. Mikil harka einkenndi leikinn og dómarar áttu á köflum í miklu basli með að halda leiknum í skefjum. Undir lokin gátu ÍR-ingar þó slitið sig frá gestunum og unnu með fimm stigum, mesti munur sem var á liðunum í lokafjórðungnum. Þeir unnu því 89-84.